141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

ESB-aðild og framkvæmd ríkisfjármálastefnu.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Hann velti fyrir sér hvort ég og fleiri teldum nauðsynlegt að ganga í Evrópusambandið til að koma aga á ríkisfjármálin eða hvort við gætum búið til okkar eigin reglur. Vitaskuld geta Íslendingar búið sér til eigin reglur og í rauninni er það mjög mikilvægt og tímabært að við setjum þær niður.

Við þurfum augljóslega, þegar við horfum tíu ár aftur í tímann og þótt við lítum lengra aftur, að koma meiri skikki og aga á hlutina þegar kemur að ríkisfjármálunum. Við þurfum að gera langtímaáætlanir. Við verðum að sleppa því að koma með skammtímalausnir og loforð rétt fyrir kosningar eins og of mörg dæmi eru um þegar við lítum til fortíðar.

Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að setja niður reglur og augljóslega getum við gert það sjálf. En það er ekki hindrun fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Agaðar reglur um ríkisfjármál eru ekki hindrun fyrir okkur heldur þurfum við hvort sem er að setja slíkar reglur. Það er því ekki slæmt fyrir okkur að Evrópuþjóðirnar séu í slíkum hugleiðingum einnig. Það er ekki hindrun heldur væri það ágætisávinningur af góðri samvinnu, af sameiginlegu verkefni sem er nauðsynlegt að fara í.