141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

ESB-aðild og framkvæmd ríkisfjármálastefnu.

[15:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég gleðst yfir því að ráðherrann telji að við getum gert þetta á okkar eigin forsendum og engin sérstök ástæða sé til að sækja agann til Evrópusambandsins í þessum efnum.

Ég get tekið undir það að lausbundin viðmið eins og við höfum lengi starfað með, t.d. 2% vöxt samneyslunnar að hámarki, hafa ekki reynst fullnægjandi. Menn hafa farið fram úr svo lausbundnum viðmiðum. Við þurfum að formfesta slík viðmið, t.d. með þeim hætti sem við í Sjálfstæðisflokknum höfum talað fyrir á þessu þingi. Ég sakna þess að ekki sé tekin dýpri umræða um þessi mál að frumkvæði ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún ber núna ábyrgð á ríkisfjármálastefnunni og ætti einmitt í kjölfar þess sem hér gerðist í efnahagsmálum þjóðarinnar árið 2008 að vera með mál af þessum toga í forgrunni þess starfs sem hún fer fyrir. Þess vegna kalla ég eftir því að ríkisstjórnin tefli fram (Forseti hringir.) hugmyndum um það hvernig við getum formgert þetta betur, fest betur í sessi agareglur og viðmiðunarreglur fyrir ríkisfjármálin þannig að menn geti lágmarkað hættuna á því að hér verði kollsteypur í framtíðinni og menn fari fram úr sér í loforðum í aðdraganda kosninga eins og mér finnst reyndar (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin sé nú þegar farin að gera.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á tímamörk.)