141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

ESB-aðild og framkvæmd ríkisfjármálastefnu.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þarna erum við hv. þingmaður sammála. Það er nauðsynlegt að láta hendur standa fram úr ermum hvað þetta varðar. Nú er verið að smíða frumvarp til laga um opinber fjármál þar sem að hluta til er tekið á þessum málum. Vonandi verða þau kynnt í haust og fá þá skjóta og góða afgreiðslu. Mér heyrist hljómgrunnurinn vera góður ef marka má þær línur sem hv. þm. Bjarni Benediktsson leggur í umræðuna með fyrirspurnum sínum og athugasemdum.

Það er rétt að við þurfum að auka agann í ríkisfjármálunum. Hvað það varðar er mikil pólitísk skuldbinding í stjórnarsamstarfi Samfylkingar og Vinstri grænna þannig að við erum einbeitt í þeim umbótavilja að koma á frekari reglum og betri ferlum.