141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu.

[15:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að tilgangurinn með þessu sé að stoppa í fjárlagagatið. Það er mjög undarlegt. Þær skýrslur sem ég talaði um áðan, bæði frá Hagfræðistofnun og frá Samtökum ferðaþjónustunnar, benda til hins gagnstæða, þ.e. að til verði minni tekjur.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðuneytið og hæstv. ráðherra hefðu velt fyrir sér í rannsóknum sínum á þessu verki, áður en stokkið var af stað með þvílíka ákvörðun, hvaða áhrif þetta hefur á byggingargeirann víðs vegar um landið. Eins og ég taldi upp áðan eru fjölmörg fyrirtæki að fara út í verktakabransann sem eykur umsvif og atvinnu í landinu og tekjur ríkissjóðs af hinu og þessu.

Ef ferðaþjónustan hefur minna vægi í öðrum löndum hafa þau lönd greinilega mismunandi pólitíska stefnu sem er þá sambærileg við stefnu Framsóknarflokksins, að styðja við hverja einustu atvinnugrein en láta ekki þær atvinnugreinar sem eru í vexti (Forseti hringir.) fá niðurskurðarhnífinn til að ganga milli bols og höfuðs á þeim, sem mér sýnist hæstv. ríkisstjórn stefna í.