141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

atvinnumál.

[15:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Fátt hefur verið talað meira um frá því að efnahagsósköpin dundu yfir hér á landi en fækkun starfa og atvinnuleysi. Hér í liðinni viku átti ég sérstaka umræðu við hæstv. forsætisráðherra um atvinnumál og í þeirri umræðu beindi ég þeim spurningum til hæstv. ráðherra hvort hún hefði ekki áhyggjur af því að miðað við tölfræði Hagstofunnar er störfum hér á landi ekki að fjölga, þvert á móti. Þegar maður rýnir í tölur Hagstofunnar blasir það við svart á hvítu.

Mig langar því að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þessar niðurstöður sýni að ríkisstjórninni er ekki að takast að skapa þau skilyrði að hér fjölgi störfum þrátt fyrir fjölmargar og ítrekaðar yfirlýsingar um að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að fjölga störfum um 4 þúsund, um 15 þúsund og ég man eftir yfirlýsingu frá hæstv. forsætisráðherra um að hér skyldi fjölga störfum um 24 þúsund.

Nú hafa fleiri en ég áhyggjur af þessu. Í dag skrifar Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, mikla grein sem birtist á Pressunni þar sem farið er yfir þá tölfræði sem Hagstofan birtir okkur. Þar kemur fram sú afstaða sjálfs forseta ASÍ að samkvæmt þessum tölum sé ljóst að störfum sé hvorki að fjölga á Íslandi né sé að draga úr atvinnuleysi heldur þvert á móti. Úr þessum tölum sé hægt að lesa að atvinnuleysisskráin sé að breytast vegna þess að fólk sé að flytja úr landi eða eigi ekki lengur rétt til bóta vegna þess að það hafi verið það lengi á atvinnuleysisskrá.

Mig langar því að beina þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Er atvinnuleysi að minnka og störfum að fjölga eður ei? Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þessa? Deilir hann ekki þessum áhyggjum með mér?