141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

atvinnumál.

[15:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég spyr aftur hæstv. ráðherra: Hvar í tölum Hagstofunnar sér hann rök sem geta stutt málstað hans hér? Hvar eru þær tölur? Tölur Hagstofunnar sýna okkur, svo að ég vitni orðrétt í grein Gylfa Arnbjörnssonar, með leyfi forseta: „að langtíma leitni á vinnumarkaði bendir til þess að atvinnuástandið er að versna fremur en batna og að gera megi ráð fyrir slæmu ástandi þegar líða tekur á veturinn“.

Jafnframt er ég algjörlega ósammála hæstv. ráðherra um að hér séu merki um að vinnustundum sé að fjölga. Ég sé ekki annað en að þeim sé einfaldlega að fækka. Fólki er að fækka á atvinnuleysisskrá vegna þess að það er annaðhvort að detta út af henni út af tíma eða það er að flytja úr landi. Heildarniðurstaðan, skoði maður tölur Hagstofunnar, sýnir okkur að ríkisstjórnin er ekki að ná árangri í baráttunni við (Forseti hringir.) atvinnuleysið heldur þvert á móti, hér er ástandið að versna og meira að segja sjálfur forseti ASÍ hefur lýst því yfir, sem ætti að vera hugmyndafræðilegur skoðanabróðir ríkisstjórnarflokkanna.