141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[15:38]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að taka þetta mál upp og benda á að um er að ræða brýnt hagsmunamál. Ég tek líka undir það með honum að starfsfólk Landspítalans hefur sýnt mikinn dugnað og fært fórnir í sambandi við þann mikla niðurskurð sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Mikilvægt er að þar sé unnið áfram með öryggi í fyrirrúmi. Hlutverk okkar er að tryggja áframhald þeirrar hágæðaþjónustu sem er á Íslandi í heilbrigðismálum.

Það er mjög forvitnilegt að skoða hvernig hlutirnir hafa þróast varðandi framlög til tækjakaupa á undanförnum árum. Ég hef verið mjög hugsi yfir því. Þó að það megi gagnrýna að ekki séu nægilega háar tölur í fjárlagafrumvarpinu í ár og á næsta ári er ég mjög hugsi yfir því hve tölurnar voru lágar í góðærinu. Þar var ár eftir ár frá 2004–2008, raunar með einni undantekningu þar sem talan var lægri, 201 milljón á verðlagi þess árs ráðstafað í tækjakaup.

Við þurftum að endurstilla allan rekstur okkar og endurskoða allt heilbrigðiskerfið vegna þess að hér varð stórt allsherjarhrun. Það hefur ekki verið átakalaust. Nú erum við aftur komin í þá stöðu að stöðva þann hallarekstur sem fyrir var en líka búin að núllstilla þannig að við ætlum ekki að beita meira aðhaldi. Nú förum við að reyna að byggja upp að nýju og finna þá nákvæmlega hvar þarf að bæta við, hvar er brýnast að koma inn með ný atriði. Tækjabúnaðurinn er þar mjög framarlega og það er einmitt þess vegna sem við höfum óskað eftir og höfum fengið fjárfestingaráætlun frá Landspítalanum þar sem settur er fram sá forgangur sem hv. þingmaður nefndi. Þar er annars vegar talað um 155 milljónir í smærri tækjum, sem þyrfti að koma til strax á þessu ári, og um 860–890 milljónir á næsta ári, mjög vandaður listi sem lagður er fram til að sýna fram á hver brýnustu verkefnin eru.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það er verkefni okkar í sameiningu að meta hvort við getum forgangsraðað með öðrum hætti og tryggt að þessi framlög komi. Sú vinna er þegar í gangi og búið að fara vel yfir það.

Það er líka rétt sem hefur komið fram hér, og það dylst engum, að tækjabúnaður er, vegna fjárveitinga undanfarinna ára, í sumum tilvikum orðinn tæpur og úreltur og í öðrum tilvikum vantar varahluti. Við þurfum að vinda ofan af þessu. Í drögum að heilbrigðisáætlun, eða tillögu sem verið hefur til umsagnar á netinu, er lögð mikil áhersla á að fara þurfi yfir þetta heildstætt yfir landið, vinna þarfagreiningu vegna endurnýjunar tækjabúnaðar, bæði fyrir sérgreinasjúkrahúsin og aðrar stofnanir. Þá þurfum við hugsanlega að setja okkur þau markmið að á hverju ári sé ákveðið hlutfall af rekstri, eins og hjá fyrirtæki, notað í tæki vegna þess að þannig þarf þetta að vera. Maður þarf að átta sig á því hvert er hlutfallið af rekstrinum en ekki vera með sérstakar fjárveitingar og sérstakt átak í hvert og eitt skipti.

Það verður að viðurkennast að það er gjafafé sem hefur bjargað þessu á undanförnum árum, það er jafnvel yfir helmingurinn af því sem verið er að fjárfesta fyrir. Um 50–60% af þeim fjárveitingum sem hafa komið til tækjakaupa eru í gegnum gjafafé. Að vísu verður að hafa í huga að ef tæki eru keypt af viðurkenndum félögum fellur virðisaukaskatturinn niður. Það hjálpar líka til í sambandi við tækjakaupin.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki væri ástæða til að vinna sérstaka fjárfestingaráætlun í kringum þetta. Eins og ég segi þá eru komin drög að henni, það þarf að vinna hana áfram til lengri tíma. Umræðan er þegar hafin um hvernig hægt sé að bregðast við og þá hvernig hægt væri að fjármagna þetta. Þegar ég segi að það sé Alþingis að breyta þessu þá er það bara sú almenna fullyrðing að fjárveitingavald er í höndum Alþingis þegar að lokasprettinum kemur. Við verðum að skoða hvernig okkur reiðir af núna inn í haustið og fram að lokaafgreiðslu fjárlaga, hvaða svigrúm við getum búið til, en ég tek undir að verkefnið er brýnt og þarf að leysast.

Ekki vinnst tími til að ræða aðra þætti sem full ástæða væri til að ræða varðandi heilbrigðiskerfið í þessari stuttu umræðu. Ég held að það sé ágætt að við fókuserum á tækjabúnaðinn. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður segir líka, að það skiptir máli að við búum vel að starfsfólki, bjóðum því rétt tæki og búnað þannig að það vilji vinna hér. Fólk er orðið góðu vant þar sem það sérmenntar sig erlendis.

Kærar þakkir fyrir umræðuna. Ég er spenntur að heyra það sem fram kemur í henni á eftir.