141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[15:43]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt, sem komið hefur fram í máli hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra, að forgangsröðunin er mjög mikilvæg til að geta nýtt fjármagn til að kaupa tæki. Að mínu mati geta tvö verkefni stuðlað að mikilli hagræðingu og sparað pening sem þá væri hægt að nota til tækjakaupa og annarra góðra verka. Ég ætla að nefna þau verkefni.

Það er í fyrsta lagi valfrjálst tilvísunarkerfi í heilbrigðisþjónustunni sem er nokkuð óumdeilt í dag að fara þurfi út í. Margir flokkar hafa gefið út yfirlýsingar um það á þinginu að fara verði í slíka kerfisbreytingu, Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir og Samfylkingin. En fara þarf í það sem fyrst að koma á valfrjálsu tilvísunarkerfi. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvar það verkefni er statt.

Hitt verkefnið er talsvert umdeildara en það er nýr Landspítali. Að mínu mati mundi sparast gríðarlegt fé með því að byggja nýjan spítala. Það er vegna þess að með nýjum spítala mundu sparast um 10–15% í rekstri. Þegar upp er staðið er reksturinn aðalútgjaldaliður spítalans, ekki byggingarkostnaðurinn. Það er ekki skelin, það er ekki steypan, hún skiptir nánast engu máli í heildarsamhenginu. Það er reksturinn sem kostar mest. Með því að hagræða um 10–15% með nýjum Landspítala væri hægt að nota það fjármagn á betri veg í heilbrigðiskerfinu.

Þetta er miklu umdeildara verkefni en það sem ég nefndi hér á undan. En þetta var ekki svona umdeilt. Allir flokkar voru meira eða minna á því að byggja ætti nýjan Landspítala. Menn tókust á um staðsetningu. Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrum heilbrigðisráðherra, lét endurskoða staðsetninguna en komst að sömu niðurstöðu og menn höfðu komist að fyrr, að best væri að byggja þar sem ráðgert er að byggja. Menn minnkuðu bygginguna og héldu að málið væri í höfn en síðan hafa blossað upp deilur um þetta verkefni. Það væri þarft að spyrja hæstv. ráðherra um næstu skref í sambandi við nýjan Landspítala.