141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[15:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við vitum öll að mikil þörf er á endurnýjun tækja á Landspítalanum. Því miður var ástandið ekki gott fyrir hrun og ég tel mikilvægt að benda á að Sjálfstæðisflokkurinn skar framlög til tækjakaupa á Landspítalanum niður um fjórðung á árunum 2002–2007. Um 25% niðurskurður Sjálfstæðisflokksins til tækjakaupa á Landspítalanum í mesta góðæri Íslandssögunnar og hv. þm. Jón Gunnarsson leyfir sér að tala um að lítið mál sé að taka á þessu máli ef vilji sé til þess. Það er hjákátlegur málflutningur.

Nú liggja fyrir drög hæstv. velferðarráðherra að nýrri heilbrigðisáætlun til ársins 2020 með markmiðum, mælikvörðum og aðgerðum. Í liðnum C.4 Sjúkrahúsþjónusta er lagt til að í maí annað hvert ár liggi fyrir áætlun um endurnýjun og kaup á tækjabúnaði til tveggja ára fyrir sérhæfðu sjúkrahúsin okkar, Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri.

Stjórnarmeirihlutinn er meðvitaður um brýna þörf fyrir endurnýjun tækja en við teljum mikilvægt að viðbótarfjárveitingar vegna tækjakaupa taki mið af heildstæðri áætlun. Þannig tryggjum við rétta forgangsröðun við kaup á mikilvægum tækjum til sérhæfðu sjúkrahúsanna okkar.

Frú forseti. Viljinn er til staðar hjá hæstv. ríkisstjórn en fjárhagsstaða ríkissjóðs er með þeim hætti að ákvarðanir verður að taka heildstætt og með skýrri forgangsröðun til þess að fjármunirnir renni þangað sem þörfin er brýnust.