141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

staða mála á Landspítalanum.

[16:04]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir umræðuna. Ég þakka áskoranir og hvatningu til að gera betur.

Varðandi fjárfestingaráætlunina sem hv. þingmaður og málshefjandi bendir á þá er hún ekki í fjárlagafrumvarpinu (Gripið fram í.) eins og hv. þingmaður gerði ráð fyrir. Aftur á móti hefur verið lögð fram áætlun miðað við ákveðna tekjumöguleika. Sumt af því er ekki komið í framkvæmd, eins og fjárfestingarfé af tekjum af leigumarkaði í sambandi við kvótann, þannig að þar er margt óleyst.

Ég fagna því mjög að Sjálfstæðisflokkurinn skuli tala fyrir auknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu eftir að hafa boðað frekari niðurskurð í ræðum sínum undanfarið og sagt að taka þurfi miklu harðar á ríkisfjármálunum og skera miklu meira niður.

Góður rekstur sem náðst hefur á spítalanum skapar okkur auðvitað svigrúm til lengri tíma og það þurfum við að nýta okkur. Ég tek heils hugar undir að þar á frábært starfsfólk stærstan hlut og árangurinn hefur verið verulegur.

Komið hafa fram nokkrar hugmyndir. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði til dæmis um valfrjálst tilvísunarkerfi. Þar er verið að vinna að því sem við köllum þjónustustýringu. Sá hópur átti að vera búinn að skila niðurstöðu en skilar henni vonandi á næstu tveimur, þremur vikum. Þá tökum við það mál til umræðu.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að nýi Landspítalinn er mjög stórt og mikilvægt skref í að bæta allan aðbúnað og alla umgjörð og að mæta þeim vandamálum sem við eigum við að glíma á spítalanum þó að það muni ekki leysa vandann akkúrat á þessu ári.

Ekki liggur fyrir fjárfestingaráætlun til langs tíma um tækjakaup. Ég kallaði eftir því að það yrði kannað og það skiptir miklu máli að við förum vandlega yfir það mál. Það var ekki til að fresta málinu, það var til þess að geta forgangsraðað þannig að það gagnaðist strax sem þar kemur fram.

Ástæðurnar fyrir því að það er ekki inni í fjárlagafrumvarpinu eru svo sem margar og ólíkar, en við lögðum megináherslu (Forseti hringir.) á að stoppa niðurskurðinn á rekstrinum og reyna að gæta þess að þar yrði alls ekki gengið lengra. Það hefur tekist og því ber að fagna.

Kærar þakkir fyrir umræðuna. Það veit á (Forseti hringir.) gott að samstaða er um að vinna hér betur að málum.