141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

gistináttagjald.

113. mál
[16:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég valdi mér að beina fyrirspurnum til hæstv. fjármálaráðherra vegna gistináttagjaldsins. Þegar ég sat yfir því að semja fyrirspurnirnar bárust fréttir af því að nú ætti að afnema þetta gjald og setja í staðinn á umfangsmikla hækkun á ferðaþjónustuna í formi virðisaukaskattshækkana. Engu að síður tel ég rétt að við förum aðeins í málið til að átta okkur á því hvernig það skilaði sér til ríkissjóðs og sjáum hvað við getum lært af því ferli öllu saman. Ég tel að það sé algjörlega ljóst að það hafi farið allt öðruvísi en menn gerðu ráð fyrir þegar þeir komu því á fyrir ári síðan, að minnsta kosti miðað við þau samtöl sem ég hef átt við fjölda fólks sem starfar í ferðaþjónustunni og hefur það hlutverk að bæta þessu gjaldi ofan á það sem þeir rukka viðskiptavini sína um.

Mig langar að fá svör við því hversu miklum tekjum gistináttagjaldið hefur skilað í ríkissjóð.

Hluti af þeirri umfangsmiklu virðisaukaskattshækkun sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað fyrir var rökstuddur af ráðherranum í fréttum þar sem hún sagði að gistináttagjaldið hefði ekki skilað sér inn í ríkissjóð í samræmi við áætlanir. Þess vegna er rétt að upplýsa hér hvernig staðan er og á hvaða rökum þessi hækkaða skattlagning byggir.

Með hvaða hætti er gjaldið innheimt? Mér hefur skilist á þeim umræðum sem ég hef átt við aðila innan ferðaþjónustunnar að það sé mjög mismunandi með hvaða hætti það er gert og menn hafa hreinlega verið í vandræðum með hvernig ætti að innheimta það og að fá leiðbeiningar um hvernig það væri best gert. Það tengist þriðju spurningu minni, vegna þess að menn hafa verið að reyna að verðleggja þjónustu sína: Á þessi hundraðkall að vera inni í tölunni sem virðisaukaskatturinn leggst síðan á? Svo virðist vera miðað við þau svör sem ýmsir ferðaþjónustuaðilar hafa fengið frá yfirvöldum.

Þá kemur síðasti liður fyrirspurnar minnar: Hvernig hefur gjaldinu verið varið eða í hvað á það að fara? Hér var nefnilega tiltekið að gjaldið ætti að fara í ákveðin verkefni í ferðaþjónustunni. Ef það er þannig að tekjurnar sem komu af gjaldinu eru margfalt minni en áætlað var, er þá verið að hætta við þessi verkefni eða fær hvert verkefni miklu minna en áætlanir voru uppi um?

Ég vonast til að fá skýr svör um þetta gjald sem vonandi heyrir brátt sögunni til.