141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

gistináttagjald.

113. mál
[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég minnist þess nú ekki að hafa talað um það í fjölmiðlum að gistináttagjaldið hafi ekki skilað sér samkvæmt áætlunum. Hins vegar hef ég talað um að það sé ekki nægilega hátt, það sé ekki nóg að fá 115 milljónir inn í ríkiskassann til að mæta kostnaði sem fylgir fjölda ferðamanna. Þannig er nú svar mitt við þeirri spurningu.

Virðulegi forseti. Ferðaþjónustan er atvinnugrein í miklum vexti og umfang hennar er orðið það mikið að hún getur vart talist sprotagrein mikið lengur. Við þurfum að vera undir það búin að taka við milljón erlendum ferðamönnum á árunum 2018 eða 2019 ef ferðamönnum fjölgar jafnmikið á næstu árum og þeim hefur fjölgað síðustu 50 ár jafnt og þétt, alveg sama hvernig krónan hefur sveiflast, alveg sama þó að virðisaukaskatturinn hafi farið úr 0% í 14% á árinu 1994 og svo aftur árið 2007 úr 14% í 7%. Það virðist ekki hafa nein áhrif og hefur ekki haft nein áhrif á fjölgun ferðamanna, þeim hefur fjölgað jafnt og þétt. Það er mikilvægt að samfélagið hagnist á þeirri fjölgun og brýn þörf er á því að vera viðbúin frekari fjölgun. Hér þarf að bæta vegakerfið, styrkja almannavarnir og björgunarþjónustu og gera gangskör að uppbyggingu innviða á fjölsóttum ferðamannastöðum og til þess þurfum við fjármagn.

Virðulegur forseti. Við höfum nefnilega reynslu af því að búa við ofvöxt atvinnugreina án þess að vera undir það búin og við verðum að vera undir það búin að ferðamönnum haldi áfram að fjölga og jafnvel (Forseti hringir.) allverulega eins og tölur sýna.