141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

málstefna Stjórnarráðsins.

75. mál
[16:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég fagna einlæglega þessu svari, þótt það sé sjálfsagt að farið hafi verið að lögum. Verið er að móta Stjórnarráðinu málstefnu í samræmi við þessa samþykkt Alþingis sem fólst í 26. gr., sem varð reyndar til hér á þingi að því leyti að hún var ekki í hinu upphaflega frumvarpi að lögunum. Mér sýnist að verið sé að gera það sem þurfti að gera og tekið sé mark á þeim atriðum sem nefnd eru einmitt í lagagreininni.

Ég held að þessu þurfi ekki að fylgja mikill kostnaður þótt eitthvert stofnfé þurfi ef til vill að leggja fram og ég tel að sá kostnaður muni fljótlega skila sér aftur í skilvirkari afgreiðslu og betri skilningi þeirra sem vinna í Stjórnarráðinu og þeirra sem því er ætlað að þjóna. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að standa fullkomlega á eigin fótum að þessu leytinu, að hafa það markmið og fullnægja því markmiði að íslensk tunga sé raunverulega notuð alls staðar þar sem þarf í Stjórnarráðinu, en tekið sé tillit til þeirra, bæði Íslendinga og annarra, sem ekki hafa fullt vald á tungunni og þurfa að eiga við Stjórnarráðið, að þeim sé gefinn kostur á skilningi eins og hægt er.

Ég vil því þakka þetta og hvetja til þess að þetta komist sem fyrst í gagnið þannig að Stjórnarráðið geti orðið öðrum fyrirmynd, þar á meðal sveitarfélögunum, í þessu efni.