141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

þjónustusamningur við löggilt ættleiðingarfélag.

68. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um þjónustusamning við löggilt ættleiðingarfélag. Meginhlutverk löggilts ættleiðingarfélags er að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá og sjá til þess að ættleiðing barns frá erlendu ríki fari því aðeins fram að tryggt sé að gætt hafi verið íslenskra laga og reglna um ættleiðingar. Um þetta er fjallað í lögum þannig að þetta er skylt.

Nú er það svo að ekki hefur verið í gildi þjónustusamningur við löggilt ættleiðingarfélag af hálfu ríkisins og því spyr ég ráðherrann þriggja spurninga:

Hvenær er gert ráð fyrir að gengið verði frá þjónustusamningi milli ráðuneytisins og löggilts ættleiðingarfélags með það að markmiði að tryggja milligöngu um ættleiðingar, sbr. 35. gr. laga nr. 130/1999?

Í öðru lagi beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Hversu langt er það tímabil orðið þar sem enginn slíkur samningur hefur verið í gildi?

Þegar það ástand er uppi að samningur er ekki í gildi verða allir óöruggir með sinn hag að sjálfsögðu og mikil óvissa um framtíðina. Í tilfelli Íslenskrar ættleiðingar hefur félagið farið þá leið að ganga á lítinn varasjóð sem félagið var búið að koma sér upp til öryggis ef eitthvað sérstakt kæmi upp. Gengið hefur verið á þann sjóð og það svo mjög að menn voru farnir að hafa áhyggjur af því hvort væri hreinlega ekkert annað í stöðunni að gera en að leggja félagið niður. Það er að sjálfsögðu mjög alvarlegt ef það að ekki er hægt að ganga frá þjónustusamningi hafi þessar afleiðingar í för með sér.

Í þriðja lagi beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Hverjar eru helstu skyldur slíks félags að lögum að mati ráðuneytisins og hafa orðið miklar breytingar á því mati ráðuneytisins undanfarin ár?

Ég tel rétt að beina þessari fyrirspurn til ráðherrans vegna þess að tekið hefur langan tíma að semja. Vísað er til þess í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram á síðasta þingi að endurmat hafi verið að fara fram á þessum skyldum eða verið að fara yfir hverjar þessar skyldur eigi að vera. Ég er að reyna að komast að því hvað það var sem tafði það og hefur tafið það að samningur hafi náðst.

Er það eingöngu vegna peningaskorts eða er verið að reyna að endurmeta starfsemina eða er einfaldlega ekki vilji til þess að halda áfram á þessari braut? Ef það er sjónarmiðið þarf væntanlega að breyta lögum og er eitthvað slíkt í bígerð? Við erum að tala um fólk sem er í þeirri stöðu að þurfa að fara þá leið að ættleiða og menn vilja auðvitað að það sé öruggt umhverfi í kringum það allt saman, bæði við sem hér störfum og eins þeir sem þurfa að fara þessa leið og velja sér að fara hana. Þess vegna tel ég brýnt að fá svör við þessum spurningum og fagna því að hæstv. innanríkisráðherra er hér mættur með svör á reiðum höndum, sýnist mér.