141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

þjónustusamningur við löggilt ættleiðingarfélag.

68. mál
[16:34]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna um þetta þarfa mál. Í allt of langan tíma hefur okkar löggilta ættleiðingarfélag, Íslensk ættleiðing, ekki verið með virkan eða fullburða þjónustusamning við ríkið um störf sín. Íslensk ættleiðing hefur unnið mjög metnaðarfullt starf og er að reyna að ráða til sín fólk og vinna mjög faglega. Er það í anda þeirrar áfangaskýrslu sem komið hefur út frá þeim starfshópi sem er að vinna að endurskoðun laganna. Nú er staðan þannig að möguleikarnir á að ættleiða börn, t.d. frá Kína, eru að aukast verulega þannig að það skiptir máli að við séum viðbúin. Meðal annars hefur Íslensk ættleiðing boðið hingað sendinefnd frá Kína sem leist mjög vel á alla aðstöðu og er tilbúin að styðja við bakið á Íslenskri ættleiðingu. Það er verulega í samræmi við stefnu stjórnvalda, sem vilja leggja áherslu á velferð barna (Forseti hringir.) og vernd þeirra um allan heim, að við gefum verulega í í þessum málaflokki og göngum frá þessum þjónustusamningi sem allra fyrst.