141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

þjónustusamningur við löggilt ættleiðingarfélag.

68. mál
[16:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og eins þeim hv. þingmönnum sem blandað hafa sér inn í umræðuna. Ég tek undir þær spurningar sem bárust til hæstv. ráðherra frá hv. þm. Kristjáni Möller. Ég fagna því að heyra það frá hæstv. ráðherra að fullur vilji sé til að klára þennan samning hið fyrsta. Ég hvet hæstv. ráðherra einfaldlega til dáða í þeim efnum.

Íslensk ættleiðing hefur beðið nógu lengi eftir niðurstöðu um það hvernig þessi þjónustusamningur eigi að vera og hvaða fjármunir muni fylgja. Sem betur fer hafa menn ekki gefist upp á þeirri bið. Á tímabili hélt ég einfaldlega að það yrði niðurstaðan, en því hefur nú verið forðað. Það er gott. Engu að síður þurfum við sem hér störfum að tryggja að nægilegt fjármagn berist til að hægt sé að halda þessari mikilvægu starfsemi áfram. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða og síðan þurfum við öll að taka að okkur að fylgja málinu eftir í fjárlagaumræðunni sem fram fer í vetur.