141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.

104. mál
[16:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi setti málin í sögulegt samhengi. Ég ætla að gera það líka í upphafi míns máls og vísa til athugasemda við tillögu mína til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 þar sem vikið er að innanlandsfluginu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Reykjavíkurflugvöllur er sem kunnugt er stærsti flugvöllurinn í innanlandskerfinu og er skilgreindur sem miðstöð innanlandsflugs á landinu. Ekki liggur fyrir sameiginleg niðurstaða skipulags- og samgönguyfirvalda um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Í þessu óvissuástandi eru miklir erfiðleikar í allri þróun á mannvirkjum sem nauðsynleg eru vegna flugstarfseminnar á Reykjavíkurflugvelli. Fyrir liggur að ekki verður ráðist í gerð samgöngumiðstöðvar við Öskjuhlíð en stefnt er að því að bæta aðstöðu til að þjóna innanlandsfluginu.“

Í samræmi við það sem fram kemur í samgönguáætlun hefur verið hætt við að reisa samgöngumiðstöð. Þess í stað á að bæta aðstöðu innanlandsflugs með því að reisa flugstöð sem síðan yrði tengd við aðra samgöngumáta. Umræður um málið eru tvíþættar, annars vegar milli innanríkisráðuneytis og Reykjavíkurborgar um ýmis atriði í starfsemi flugvallarins, meðal annars almenningssamgöngur, og hins vegar milli Reykjavíkurborgar og fjármálaráðuneytis um lóðamál. Þær viðræður standa yfir, en ekki er vitað hvenær þeim lýkur. Reykjavíkurborg gerir kröfu um að báðum þessum þáttum verði lokið á sama tíma.

Ég held að ég og hv. fyrirspyrjandi séum mjög á einu máli um þessi mál eins og reyndar kom fram í áherslum hans. Ég tel mjög mikilvægt að flugvöllurinn verði á því svæði þar sem hann er núna og tel það reyndar vera stórkostlegt öryggisatriði. Við skulum ekki gleyma því að þau hraun sem runnið hafa nærri helstu samgönguæðum sem liggja inn á höfuðborgarsvæðið eru frá því eftir landnám. Það á við um hraunin á Reykjanesskaganum sem runnu á 12. öld. Síðan höfum við Hellisheiðina eins og frægt varð — hverju reiddust goðin? Það voru hraun sem runnu þá árið 1000. Þannig að það er öryggisatriði fyrir landsmenn að hafa flugvöll á því svæði sem hann er núna. Þarna erum við sammála.

Við erum líka sammála um hitt, að flugið þarf að hafa sem besta aðstöðu til að þjóna þeim sem nýta sér flugvöllinn. Ég hef margoft lagt áherslu á það í viðræðum við Reykjavíkurborg að þessu verði hraðað sem fyrst. En ég vil jafnframt að það komi fram að ég hef einnig sagt að í samningum um landsvæðið, sem að hluta til heyrir undir ríkið, megi ekki halda svo á málum að öryggi flugvallarins verði skert og þjónustumöguleikar hans. Þessir samningar um lóðamálin eru á hendi fjármálaráðuneytisins við Reykjavíkurborg. Staðreyndin er sú að ríkið hefur ekki skipulagsvald. Ríkið hefur hins vegar eignarhald, eins og ég segi, á hluta landsins.

Síðan minni ég á það, sem margoft hefur verið sagt í þessum sal, af þeim sem eru fylgjandi því að flugvöllurinn verði á sínum stað, að það kemur landsmönnum öllum við hvar flugvöllurinn er staðsettur. Þetta er flugvöllurinn okkar allra. Þetta er höfuðborgin okkar allra. Allir landsmenn eiga að hafa aðkomu að ákvörðun í þessum efnum þótt því sé að sjálfsögðu haldið til haga að skipulagsvaldið er síðan hjá borginni.