141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.

104. mál
[16:50]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég verð að segja að ég harma það hversu það hefur dregist að koma á hreint staðsetningu á flugvellinum í Reykjavík til framtíðar. Það hefur verið svo að menn þykjast stöðugt vera að reyna ná einhverri sátt af annars hálfu um að hann fari og af hálfu hins að hann verði kyrr.

Höfuðborgin okkar, Reykjavík, er miðstöð stjórnsýslunnar. Hún er miðstöð opinberrar þjónustu á svo margvíslegan hátt. Hér eru háskólarnir. Hér eru höfuðsjúkrahúsin. Hér er Stjórnarráðið. Að mínu viti er það hrein höfuðborgarskylda og ætti ekki að þurfa að ræða að flugvellinum verði um ókomin ár tryggður staður í Reykjavík. Ef það þarf núna (Forseti hringir.) að setja lög á Alþingi um að svo skuli vera og höfuðborginni gert skylt að bregðast við skipulagslega til að svo verði, (Forseti hringir.) á að gera það.