141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

flutningur málaflokks fatlaðs fólks.

146. mál
[17:03]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Á undirbúningstíma yfirfærslu málaflokks fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga sem tók gildi 1. janúar 2011, samanber lög nr. 152/2010, var gert sérstakt samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslunnar. Samkomulagið var undirritað 6. júlí 2010 af fjármálaráðherra, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir hönd ríkisins og formanni stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og framkvæmdastjóra fyrir hönd sveitarfélaganna.

Samkvæmt samkomulaginu færðust 10,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaga vegna þjónustunnar. Fjármagnstilfærslan var framkvæmd með þeim hætti að útsvarshlutfall sveitarfélaga var hækkað um 1,2% gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Í heildarsamkomulagi milli aðila um yfirfærsluna, sem dagsett var 23. nóvember 2010, var byggt á framangreindum fjárhagsramma með nokkurri viðbót vegna aukinna verkefna sem þingið hafði samþykkt. Jafnframt var í 11. gr. heildarsamkomulagsins ákvæði um það að árið 2014 skyldi fara fram sameiginlegt mat ríkis og sveitarfélaga á faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslunnar og að undirbúningur matsins skyldi hefjast árið 2013.

Einnig var samkomulag um að ef matið leiddi í ljós verulega „röskun á forsendum tilfærslunnar“, eins og það er orðað í samkomulaginu, skuli teknar upp viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um nauðsynlega leiðréttingu. Inn í þetta kemur það sem hv. þingmaður benti á varðandi 12. mánuðinn því að það er spurning hvernig gengið er frá ríkisfjárlögum hvort borgað hafi verið fyrir 11 mánuði eða 12. Þessi ágreiningur hefur verið dreginn fram og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks hefur fjallað um málið. En að því er mér skilst er samkomulag um það eða að minnsta kosti hafa menn leitt málið þannig fram að þetta muni fara í lokauppgjör og skoðast þá í heild.

Hins vegar hafa komið fram athugasemdir um ýmislegt annað. Það hefur til dæmis komið fram að einstök sveitarfélög telja að útsvarið skili sér ekki að fullu til þess að borga þjónustuna. Á öðrum svæðum er það öfugt. Þetta er svo sem alveg það sama og gerðist með grunnskólana á sínum tíma. Þegar menn nota hækkun á útsvari, sem ég held að sé réttasta og besta leiðin til þess að fjármagna þetta, kann það að lenda mismunandi á svæðum eða einstaka sveitarfélögum.

Miðað við þetta má auðvitað segja að fyrstu þrjú árin frá því að tilfærslan tók gildi séu eins konar reynslutími. Einnig er ljóst að á undirbúningstímanum var samið milli aðila um ákveðið ferli til að leggja sameiginlegt mat á faglegan og fjárhagslegan árangur verkefnisins og hvernig aðilar skyldu taka á því ef í ljós kæmi röskun á forsendum tilfærslunnar eða ágreiningur um fjárhagslegar forsendur að reynslutíma loknum. Þetta var farvegurinn fyrir málið.

Þróun álagningarstofnsins, eins og ég sagði áðan, þ.e. útsvarsins, hefur verið sveitarfélögum hagstæð frá því að yfirfærslan fór fram og hefur skapað sveitarfélögum aukið fjárhagslegt svigrúm. Eigi að síður er ljóst að aðstæður sveitarfélaga til þess að takast á við þetta verkefni eru mismunandi. Kemur þar ýmislegt til svo sem mismunandi stærð og fjárhagsstaða, dreifing byggðar eða byggðakjarna innan þjónustusvæðis, ólíkur fjöldi og mismunandi þjónustuþörf fatlaðra íbúa.

Því er mikilvægt að sveitarfélög og sérstaklega þjónustusvæði fylgist vel með þróun mála hver á sínu svæði og komi upplýsingum til Sambands íslenskra sveitarfélaga um atriði sem þau telja að þurfi að koma til álita þegar sameiginlegt endurmat fer fram árið 2014.

Hæstv. forseti. Ég vona að þetta stutta svar svari að einhverju leyti fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda.