141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

flutningur málaflokks fatlaðs fólks.

146. mál
[17:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Herra forseti. Það er ágætt að fá þetta svar og það er skýrt. Það verður leyst úr þessum vanda þegar fram líða stundir en eftirtektarvert er engu að síður að sveitarfélögin sitja uppi með þennan halla um einhvern tíma. Það skyggir jafnvel á yfirfærsluna sem engu að síður — og við skulum horfa á björtu hliðarnar — hefur að mínu viti tekist einstaklega vel, enda á þessi málaflokkur best heima í nærsamfélaginu. Dæmin sanna að þjónustan hefur styrkst og orðið manneskjulegri eftir því sem hún hefur færst nær skjólstæðingum og heim í hérað.

Herra forseti. Mig langar að tvinna aðeins við þessa umræðu og leita álits hæstv. velferðarráðherra á frekari flutningi málaflokka frá ríki til sveitarfélaga. Sá sem hér stendur hefur þá pólitísku sannfæringu að ein heillavænlegasta byggðaaðgerð sem í boði er sé að flytja frekari málaflokka frá ríki til sveitarfélaga. Um tíma hefur það verið svo að hin opinbera þjónusta hefur að 70% verið hjá ríkinu en 30% hjá sveitarfélögum. Ef til vill má líta svo á að þessum hlutföllum megi snúa við og þá horfa menn vitaskuld til málaflokks aldraðra sem mér leikur hugur á að vita hvenær fari yfir til sveitarfélaganna. Samlegðaráhrifin hljóta að kalla á flutning heilsugæslunnar sömuleiðis yfir til sveitarfélaganna.

Spyrja má hvort hér verði um valkvæða aðgerð að ræða. Sumum sveitarfélögum hentar betur en öðrum að taka við þessari nærþjónustu og nægir þar að nefna 8 þús. manna markið sem sett var við flutning fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaga og var að mínu viti eðlilegt viðmið að þjappa sveitarfélögum saman og efla samvinnu þeirra á milli til að taka á móti þessum viðamiklu flokkum. (Forseti hringir.)

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé þeirrar skoðunar að færa eigi fleiri málaflokka yfir til sveitarfélaga frá ríkinu.