141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

fæðuöryggi.

139. mál
[17:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út að gert er ráð fyrir að matvælaþörf heimsins muni aukast um 70% til ársins 2050. Aðalástæða þess er aukinn fólksfjöldi í heiminum og aukin neysla matvæla. Þetta mun gerast samhliða því að hefðbundin fæðuframleiðslusvæði verða fyrir slæmum áhrifum loftslagsbreytinga vegna hnattrænnar hlýnunar. Þá munu að öllum líkindum hin köldu strjálbýlu lönd í norðri og verða góð landbúnaðarlönd, þar á meðal Ísland. Fólksfjölgun og vaxandi matvælaverð og óstöðugleiki á matvæla- og hráefnismörkuðum mun leiða af sér minnkandi fæðuöryggi. Það er því ljóst að fæðuöryggi er á meðal mikilvægustu málefna sem ríkisstjórnir þurfa að glíma við á komandi árum og áratugum. Þessi mál hafa komið til skoðunar víða í nágrannalöndum okkar, en þrátt fyrir efnahagshrun og náttúruhamfarir er engin opinber stefna til í þessum málaflokki hér á landi og hefur ekki verið mótuð af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Það eru margir þættir sem geta stefnt fæðuöryggi Íslendinga í hættu. Þar má til að mynda nefna náttúruhamfarir sem geta skaðað dreifikerfi þau sem byggt er á, ekki síst dreifikerfi sem að stórum hluta tengja höfuðborgarsvæði við landsbyggðina. Búfjárstofnar hér á landi eru afar viðkvæmir fyrir mögulegum utanaðkomandi sýkingum. Skortur á olíu og orkugjöfum, rafmagnsbilanir og fleira geta skert fæðuöryggi. Einnig er hætta fólgin í því hversu íslensk framleiðsla er háð innflutningi. Ef lokast fyrir innflutning takmarkar það matvælaframleiðslu á Íslandi gríðarlega. Auk þess eru litlar sem engar matarbirgðir að staðaldri til á Íslandi og því nær ómögulegt að bregðast við skyndilegu neyðarástandi sem kann að skapast.

Í ljósi þessa langar mig að spyrja hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra tveggja spurninga sem þessu tengjast:

1. Telur ráðherra að Ísland búi við nægilegt fæðuöryggi, og þá einnig í samanburði við aðrar þjóðir?

2. Er í vinnslu langtímaáætlun með það að markmiði að auka fæðuöryggi Íslands?