141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

fæðuöryggi.

139. mál
[17:16]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa við þessu mikilvæga máli og fagna því að fá um þetta fyrirspurn. Þetta er mikilvægt umfjöllunarefni. Ég gerði það til dæmis að umtalsefni við setningu búnaðarþings síðastliðinn vetur og ef ég man rétt hefur þetta stef gjarnan verið kveðið þar og víðar, ekki síst frá hruni ef svo má að orði komast, því að þá vöknuðu auðvitað umræður um það hvar við værum á vegi stödd ef óvæntir og miklir atburðir gerðust hvað varðaði hluti eins og fæðuöryggi.

Ef við veltum aðeins fyrir okkur skilgreiningum í þessum efnum má segja að fæðuöryggi snúist um að hafa á hverjum tíma tryggan og aðgengilegan nægan mat, þ.e. orku, prótein og bætiefni og annað það sem við þurfum til að búa við fjölbreytt fæðuframboð og af nægum gæðum.

Hins vegar má segja að matvælaöryggið sem slíkt sé nær því að snúa að heilnæmi matvörunnar og að hún sé á hverjum tíma góð til neyslu.

Ísland er í athyglisverðri stöðu að þessu leyti því við erum mikið fæðuútflutningsland. Einstaka mikilvægasta útflutningsafurð okkar er auðvitað fæða, fiskur. Landbúnaðurinn er líka í vaxandi mæli útflutningsgrein þótt vægi hans sé miklu meira hvað varðar framleiðslu fyrir innlendan markað. En um leið og Ísland er fæðuútflutningsland er það líka mikið innflutningsland. Gamla viðmiðunin helst nokkurn veginn í gildi, við flytjum inn um 50% af því sem þarf til að svala fæðuþörf þjóðarinnar. Það helgast af því að við flytjum inn bæði korn til manneldis og líka umtalsvert fóður til matvælaframleiðslu, suðræna ávexti og annað í þeim dúr.

Hugtakið fæðuöryggi má nálgast úr tveimur áttum. Annars vegar er það langtímaöryggi sem snýst um að tryggja stöðugt framleiðsluumhverfi, tryggja að framleiðslan sé til staðar og traust í sessi og að til langs tíma búi landið sig þannig út að það sé sjálfu sér nægt í þeim mæli sem það er mögulegt og tryggi síðan aðföng sín sem þarf að flytja inn.

Hins vegar má segja að fæðuöryggi geti snúist um viðbrögð við óvæntum atburðum svo sem fuglaflensu, skyndilegu rofi í samgöngum, náttúruhamförum og öðru í þeim dúr. Það liggur þá nær samræmdum viðbrögðum við einhvers konar almannavarnaástandi eða vá af því tagi.

Það er augljóst mál að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Það mun taka það hlutverk alvarlega. Ég hyggst beita mér fyrir því að á þessum málum verði tekið og kannski markvissar en gert hefur verið að undanförnu, þar á meðal að hefja undirbúning að langtímaáætlun eins og hv. fyrirspyrjandi spyr um. Ég held að það sé skynsamlegt að við leggjum niður fyrir okkur áherslur sem snúa að langtímastefnumótun á þessu sviði, fæðuöryggi, út frá langtímaöryggi.

Í grunninn þurfum við auðvitað að standa vörð um matvælaframleiðslu okkar. Það gerum við meðal annars með því að varðveita uppspretturnar, með því að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskstofna og stöðugt starfsumhverfi í sjávarútvegi, tryggja varðveislu beitarlands, ræktarlands, framleiðslutækja og tóla og afkomu í landbúnaði og matvælaiðnaði og öllu því tengdu.

Við rekum þá stefnu að landbúnaðurinn fullnægi þörfum okkar fyrir þær afurðir sem náttúra landsins yfirleitt býður upp á að raunhæft sé að framleiða. Þessarar stefnu sér auðvitað stað í opinberum stuðningi, bæði í formi ríkisframlaga og innflutningsverndar. Liður í því sama er öflugt rannsókna- og þróunarstarf sem er líka hluti af því að tryggja fæðuöryggi.

Í því liggja líka sóknarfæri okkar, t.d. möguleikar til að stórefla kornrækt. Ég tel að það sé einboðið að fara þá leið sem skýrslur hafa mælt með, að styðja betur við möguleika okkar til þess að verða meira sjálfum okkur næg á sviði kornræktar, bæði til manneldis og til fóðurgerðar. Ég nefni sem dæmi búgrein eins og svínaræktina sem á þar heilmikla möguleika. Ég vona að þessa muni sjá stað í þeim viðræðum sem nú standa yfir milli Bændasamtakanna og ríkisins um endurskoðun búnaðarlagasamnings.

Möguleikar okkar eru þarna umtalsverðir. Þetta kemur inn á það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi um það sem fram undan er hjá mannkyninu, að þurfa hátt í að tvöfalda fæðuframleiðslu næstu hálfa öldina eða svo. Við eigum möguleika á sviði kornræktar, grænmetisræktar, bæði úti- og inniræktunar, jafnvel ávaxtaræktar, (Forseti hringir.) þar sem epla- og plómurækt er ekki eins fjarlægur kostur og áður var.

Þannig að svörin við spurningunum eru:

Já, ég tel að við búum við viðunandi fæðuöryggi, en við getum gert betur og eigum að geta betur. (Forseti hringir.)

Já, við eigum að leggja niður fyrir okkur langtímaáætlun í þessum efnum.