141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

fæðuöryggi.

139. mál
[17:25]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er alveg ljóst, ég kom því ekki að í fyrra svari mínu, að fæðuöryggisþátturinn tengist að sjálfsögðu þeim viðbúnaði sem við höfum á ýmsum öðrum sviðum, t.d. varðandi orkuforða, olíu, lyf, fóður og annað sem kann að vera óaðskiljanlegur hluti af því að viðbúnaður okkar að þessu leyti sé fullnægjandi. Svo getum við farið yfir í sjúkdómavarnir og margt fleira. Allt spilar þetta saman. Upp að vissu marki þarf að taka fæðuöryggis- og matvælaöryggismálin einfaldlega með sem lið í almennum viðbúnaði landsins til að mæta óvæntum aðstæðum.

Það er ýmislegt hægt að gera til þess. Ég tek aftur sem dæmi aukna kornrækt og framleiðslu. Ef við náum því upp á tíu, fimmtán árum, sem margir telja raunhæft, að verða í þó nokkrum mæli sjálfum okkur næg í þeim efnum, vex fæðuöryggi þjóðarinnar augljóslega með því, að því tilskildu að við höfum það sem til þarf. Svo verða einhver áföll og uppskera verður ekki alltaf góð eins og gengur, en að breyttu breytanda yrði hér væntanlega í birgðum miklu meira korn, við værum fær um að framleiða svín og annað án þess að vera háð innflutningi nánast dag frá degi eða viku frá viku eða mánuð frá mánuði.

Já, ég tel að það liggi líka miklir möguleikar í grænu greinunum, og svara þar með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni. Við höfum séð ágæta þróun í stóraukinni útiræktun á ýmsu grænmeti, að vísu aðallega yfir afmarkaðan tíma ársins. Gróðurhúsaframleiðslan hefur færst meira yfir í heilsársframleiðslu með lýsingu og súrefnisgjöf o.s.frv. Við erum meira að segja að sjá ávaxtarækt koma upp. Sá sem hér stendur hefur séð pínulítil epli og pínulitlar plómur á eigin ávaxtatrjám. Þetta er eitthvað sem hefði þótt fjarlægur möguleiki fyrir ekki löngu síðan. En kannski eigum við eftir að upplifa að það verði ekki eins fjarlægt og áður var talið að það svið breikki verulega (Forseti hringir.) þar sem Ísland geti farið í einhverjum mæli að verða sjálfu sér nægt í þessum efnum.