141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

bókhald.

93. mál
[17:33]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Áður en ég hef að mæla fyrir þessu frumvarpi vil ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, fyrir góðar móttökur. Ég er sammála því að það er æskilegt að þessi mál sem eru endurflutt — það sem ég mælti fyrir síðast, mér láðist kannski að taka það fram, og það sem ég mun núna mæla fyrir, eru hvort tveggja gamlir kunningjar. Við lögðum okkur fram um að reyna að koma þeim hér strax fyrir þingið þannig að hv. þingnefnd hafi góðan tíma til að ljúka vonandi endanlega umfjöllun um þessi mál. Hér eru nokkur frumvörp á ferð sem flest eru því sama marki brennd að þau hafa komið einu sinni eða jafnvel tvisvar, allt upp í þrisvar jafnvel, fyrir þingið áður og eru nú orðin fullþroskuð, skulum við vona, til afgreiðslu.

Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um bókhald, með síðari breytingum. Þetta mál var, eins og áður sagði, flutt á síðasta þingi en náðist þá ekki fram til afgreiðslu. Þetta er tengt frumvarpi sem sömuleiðis er hér á ferðinni og breytir ákvæðum um ársreikninga.

Með frumvarpinu eru fyrst og fremst lagðar til breytingar sem leiða af lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, sem voru samþykkt á vorþingi 2008. Þá voru töluverðar breytingar gerðar á þágildandi lögum og reglum um endurskoðendur. Samkvæmt þeim lögum geta ekki aðrir en þeir sem fá löggildingu ráðherra endurskoðað reikningsskil og áritað þau í samræmi við endurskoðunina.

Meginbreytingar þær sem hér eru lagðar til lúta að því að breyta núgildandi lögum í samræmi við þetta, en þau hafa lagt að jöfnu störf endurskoðenda og skoðunarmanna reikninga. Að auki er lagt til í frumvarpinu að heimild félaga til að hafa texta bókhaldsbóka og ársreikninga á dönsku eða ensku í stað íslensku verði víkkuð út til annarra eða fleiri félaga en þeirra einna sem hafa heimild til að hafa reikningsskilin í erlendum gjaldmiðli. Þessi heimild á við þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi eins og til dæmis þegar um erlent eignarhald er að ræða eða stjórnarmenn eru erlendir. Vaxandi tilhneigingar gætir hjá félögum til að hafa texta ársreiknings á ensku, og er hún einkum komin til af því að um erlenda eignaraðild og/eða stjórnaraðild er að ræða. Reynslan sýnir að fjöldi félaga hefur ársreikninga sína á ensku þrátt fyrir að vera með reikningsskilin í íslenskum krónum og ekkert samband er á milli þess að færa bókhaldið í erlendum eða innlendum gjaldmiðli og texta bókhaldsins.

Einnig er lögð til almenn heimild til varðveislu bókhaldsgagna erlendis í allt að sex mánuði. Er sú heimild ekki bundin við færslu bókhalds í erlendum gjaldmiðli. Benda má á að færsla bókhalds með rafrænum hætti verður æ algengari og er þá alltaf óheftur aðgangur að rafrænum bókhaldsgögnum án tillits til þess hvar í heiminum bókhaldið er varðveitt.

Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.

Hjá þeim sem hafa annað reikningsár en almanaksárið koma lög þessi þó ekki til framkvæmda fyrr en við upphaf fyrsta reikningsárs sem hefst eftir 1. janúar 2013.

Virðulegur forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar til þóknanlegrar umfjöllunar.