141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

bókhald.

93. mál
[17:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þennan gamla kunningja sem er eins og fyrra málið endurflutt og sömuleiðis nokkuð tæknilegs eðlis, til þess gert að mæta breyttum samfélagsháttum og þróun í viðskiptum sem verða sífellt alþjóðlegri. Það kallar á að gert sé ráð fyrir því í lögum. Ég á ekki von á því að miklar pólitískar deilur verði um efni máls, heldur verði fyrst og fremst verkefni hv. efnahags- og viðskiptanefndar að leita eftir sjónarmiðum fagaðila og þeirra sem lögin þurfa að þola, hvort það sé ekki tæknilega vel og rétt útfært og það megi koma hér til baka sem allra fyrst þannig að það megi afgreiða sem lög frá Alþingi á þessu haustþingi.