141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

innheimtulög.

103. mál
[17:58]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil þær athugasemdir sem hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, gerir. Það er alveg rétt að þetta mál er kannski nokkuð annars eðlis en þau tæknilegu mál sem við vorum að fjalla um á undan. Það gerir í sjálfu sér efni þess ekki minna virði. Ég mundi frekar segja að umræðan gæti skiljanlega orðið á þeim nótum hvort hér sé gengið nógu langt. Í þessu er fólgin tilraun til að ná betur og heildstætt utan um þessi mál þannig að allir sem hafa innheimtustarfsemi með höndum heyri undir eftirlit, eftir atvikum Fjármálaeftirlitið eða Neytendastofu. Almennt eru breytingarnar hugsaðar til hagsbóta fyrir neytendur og til að styrkja þeirra stöðu. Spurningin er þá bara hvort menn telji að þörf sé á að ganga lengra í einhverjum tilvikum eða hvort þetta sé fullnægjandi.

Þetta er að minnsta kosti viðleitni í þá átt að ná heildstæðar utan um þetta og ég fagna því ef hv. þingnefnd hefur aðstöðu til og gefur sér tíma til að fara betur ofan í saumana á því hvort megi frekar styrkja en draga úr því sem hér er lagt til. Ég býst þó við því að þá muni heyrast hljóð úr horni. Að sjálfsögðu liggur að baki talsvert samráð og samskipti við þá sem við eiga að búa og reynt hefur verið að finna útfærslu sem allir ættu að geta unað við, þó þannig að kostnaði verði stillt í hóf en eftirlitið styrkt til hagsbóta fyrir neytendur á þessu sviði.

Það er alveg rétt að við viljum ekki sjá og hafa það þannig að menn geti farið stórkostlega offari í innheimtuaðgerðum, t.d. sé kurteislega farið af stað eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, menn gangi ekki lengra í fyrstu tilkynningum o.s.frv. en efni standa til og menn njóti vafans verði (Forseti hringir.) þeim það á að hafa ekki staðið í skilum með greiðslu á gjalddaga. Það sé ekki fyrr en lengra er komið sem farið er að veifa harkalegri aðgerðum.