141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

innheimtulög.

103. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að hér er verið að reyna að nálgast þessa hluti með heildstæðum hætti og skýra það hverjir eigi að hafa eftirlit og bera ábyrgð á eftirliti með hverju. Það er eins og hæstv. ráðherra segir viðleitni, en ég vil ekki bara segja viðleitni, það er góð viðleitni sem kemur fram í þá veru í þessu máli og horfir sannarlega til framfara þó að umræðan verði væntanlega, eins og ráðherrann gefur í skyn, um það hvort óhætt sé að ganga lengra í einstökum atriðum.

Því miður er það þannig og fram hjá því verður ekki horft að á undanliðnum áratug eða svo hefur í tilteknum efnum verið deilt um hvaða eftirlitsstofnanir ættu að hafa eftirlit með einstökum þáttum. Vegna þess að aðilar voru ekki sammála og lögin ekki nægilega ótvíræð um það hverjum bæri að hafa eftirlit með tilteknum þáttum þá var því ekki sinnt með þeim afleiðingum að gengið var óhæfilega langt fram gagnvart neytendum í þeim málum. Það á að vera okkur áminning um að þessir hlutir þurfa að vera heildstæðir og alveg skýrt hver það er sem ber ábyrgð á hverju og það er það sem leitast er við með þessu frumvarpi.

Ástæða er til að fagna því og árétta að það er framfaraskref þó að ég spái því að ívið meiri umræður verði um það en hin fjögur málin sem hér hefur verið mælt fyrir en fagna því líka um leið að nefndin fái nóg af málum í upphafi þings til að vinna úr, því að það eru mörg brýn og þörf mál á málasviði ráðherrans sem sinna þarf á þessum vetri.