141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

106. mál
[18:07]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Meginefni þessa frumvarps eru lykilupplýsingar, markaðssetning, samrunasjóðir, svonefndur Evrópupassi, höfuðsjóðir og fylgisjóðir.

Í frumvarpinu er fyrst og fremst lögð til innleiðing og að innleidd verði að fullu í íslenskan rétt tilskipun 2009/65/EB um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Tilskipunin er endurútgáfa af eldri tilskipun á þessu sviði og hefur auk þess að geyma ný ákvæði.

Helstu breytingar sem frumvarpinu fylgja eru í fyrsta lagi að lagt er til að kynningarferli við markaðssetningu verðbréfasjóða utan heimalands verði einfaldað og rekstrarfélög geti því markaðssett verðbréfasjóði utan heimalands með skilvirkari hætti. Fjármálaeftirlitið mun annast öll samskipti við lögbæra eftirlitsaðila þess verðbréfasjóðs sem hyggst markaðssetja hlutdeildarskírteini sín hér á landi sem og samskipti við lögbæran eftirlitsaðila í því landi sem markaðssetning íslensks verðabréfasjóðs er fyrirhuguð í.

Í öðru lagi er lagt til að í stað útdráttar úr útboðslýsingu gefi rekstrarfélagið út lykilupplýsingar verðbréfasjóðs þar sem helstu upplýsingar um verðbréfasjóðinn eru settar fram á aðgengilegan hátt fyrir fjárfesta. Lykilupplýsingarnar munu auðvelda fjárfestum að bera saman verðbréfasjóði á Evrópska efnahagssvæðinu og eru þar með ætlaðar til þess að auka samkeppni.

Í þriðja lagi er lagt til að erlendum rekstrarfélögum verði veitt heimild til að stofna og stjórna sjóðum sem hafa staðfestu og staðfestingu í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli svokallaðs Evrópupassa. Fjármálaeftirlitið mun sjá um að veita heimildina að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í fjórða lagi er lagt til að lögfestar verði reglur varðandi samruna verðbréfasjóða. Þetta á bæði við um innanlandssamruna og millilandasamruna verðbréfasjóða. Hingað til hafa ekki verið lögfestar reglur um samruna verðbréfasjóða.

Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði um höfuðsjóði og fylgisjóði. Fylgisjóður er sjóður sem hefur fengið heimild til að fjárfesta að minnsta kosti 85% eigna sinna í höfuðsjóði. Um er að ræða frávik frá núgildandi fjárfestingarheimildum sem Fjármálaeftirlitið getur veitt heimild fyrir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ekki er talið að frumvarp þetta hafi nein áhrif á afkomu ríkissjóðs, verði það lögfest óbreytt. Að lokum legg ég til, virðulegi forseti, að því verði vísað að lokinni þessari umræðu til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.