141. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2012.

verðbréfasjóðir, fjárfestingarsjóðir og fagfjárfestasjóðir.

106. mál
[18:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Engum þarf að koma á óvart að alþingismaður Samfylkingarinnar fagni frumvarpi um Evrópupassa. Kunnara er en frá þurfi að segja að sameiginleg fjárfesting í framseljanlegum verðbréfum er starfsemi sem ryður sér æ meira til rúms á fjármálamarkaði og í viðskiptalífinu. Þess vegna er brýnt að öll lagaumgjörð okkar hér fylgi vel eftir því sem gerist í helstu viðskiptalöndum okkar og á þeim markaði sem við störfum á, Evrópska efnahagssvæðinu.

Það er líka sjálfstætt mikilvægt verkefni að greiða fyrir því að sjóðir af þessu tagi fái ekki bara starfað heldur vaxið og dafnað á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og að viðskipti með þá milli landa og yfir landamæri séu auðvelduð og mönnum greidd leið eftir því sem kostur er til þess að fara yfir landamæri og milli landa með þau viðskipti. Verðbréfasjóðir af þessu tagi gegna auðvitað mjög mikilvægu hlutverki í allri fjármögnun í atvinnulífi og ekki síst á sviði nýsköpunar og þeirra þátta sem við Íslendingar þurfum sérstaklega á að halda, þ.e. fjárfestingu í atvinnulífinu.

Málið verður tekið til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd svo fljótt sem verða má og ég vænti þess að eftir að hafa fjallað um það vel og ítarlega og kallað eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og helstu sérfræðinga á þessum vettvangi geti málið komið til 2. umr. á þessum vetri.