141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að ræða aðeins þann fund sem var í hádeginu, sameiginlegan fund fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í framhaldi af umfjöllun Kastljóss í gær um mjög alvarlegt mál þar sem hugbúnaðarkerfi fyrir ríkið sem átti að kosta 160 milljónir er komið upp í 4 milljarða. Fjármunirnir hafa runnið til eins fyrirtækis sem var á sínum tíma einkavinavætt í hendur flokksgæðinga. Sagan endurtekur sig. Það á bara eftir að fletta einu laginu enn utan af lauknum.

Það er ömurlegt að vera í þessari stöðu ár eftir ár. Í þessu tilviki, þ.e. í Kastljósi í gær, var verið að fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar þannig að það var ekki verið að búa til einhverjar upplýsingar heldur eru þetta gögn sem Ríkisendurskoðun hefur haft undir höndum árum saman og þagað yfir.

Framhald vinnunnar við þessa skýrslu, eins og kom fram á fundinum í morgun, hefur verið mjög einkennilegt og ekki í samræmi við verklagsreglur Ríkisendurskoðunar hingað til, þ.e. að tilteknir aðilar fái skýrsluna afhenta óformlega til að gera væntanlega einhverjar óformlegar athugasemdir við hana.

Niðurstaðan eftir fundinn í morgun getur að mínu viti eingöngu verið á einn veg: Það þarf að taka framhald þessarar vinnu úr höndum Ríkisendurskoðunar og láta fara fram rannsókn á þessu máli og á vinnubrögðum Ríkisendurskoðunar í málinu og það þarf að koma fram með nöfnin á þeim sem tengjast því í stjórnsýslunni, í einkageiranum og benda á þessi tengsl viðskiptalífs, stjórnmála og stjórnsýslu. Greinilegt er við fyrstu umfjöllun að um er að ræða gjörspillingu í samfélaginu. Það er ekki hægt að búa við þetta endalaust og nú verður Alþingi og þingmenn einfaldlega að taka af skarið og setja á stofn enn eina rannsóknarnefndina. Þó að (Forseti hringir.) hæstv. forseta þingsins sé illa við það og telji það ekki peninganna virði (Forseti hringir.) þá getum við ekki búið við þetta ástand áfram.