141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil deila með þingmönnum upplifun minni í morgun og þeirri atburðarás sem var sett af stað. Ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fékk fundarboð um að sameiginlegur fundur yrði haldinn með fjárlaganefnd í hádeginu og að umfjöllunarefnið ætti að vera Kastljóssþáttur hv. þm. Björns Vals Gíslasonar frá því í gær. Þar sem ég sat á fundi á þeim tíma og sá ekki þennan Kastljóssþátt þá mætti ég til fundarins og vissi ekki hvað væri á dagskrá. Svo ber undir að meira að segja fjölmiðlum hafði verið boðið á fundinn en enginn vissi raunverulega hver það var sem stóð að því boði nema hvað fundarsalurinn var fullur af fjölmiðlamönnum.

Það sem gerist síðan, frú forseti, sem er öllu alvarlegra, er að í ljós kemur að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, er sá eini á fundinum með drög að skýrslu Ríkisendurskoðunar undir höndum. Við hinir þingmennirnir 12 eða 15, tvær sameiginlegar nefndir, höfðum engin gögn í höndum. Það sem er allra verst í þessu, og er ekki til að auka virðingu þingsins, er að á fundinum kom í ljós að þessi drög eru þýfi. Þessum drögum var stolið frá Ríkisendurskoðun og þar kemur þrennt til: Forstöðumaður fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins var búinn að afhenda skýrsluna þannig að hann liggur ekki undir grun en þá eru það núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Ríkisendurskoðunar sem hafa komið henni í hendur fjölmiðla. Það er grafalvarlegt að formaður fjárlaganefndar þingsins skuli vera með þessa skýrslu undir höndum, sérstaklega í ljósi þess, (Forseti hringir.) eins og ég kom inn á áðan, að hún er þýfi og hefur þjófnaðurinn nú þegar verið kærður til lögreglu. Við ætluðum (Forseti hringir.) að auka virðingu þingsins — var það ekki?