141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á hv. þingmenn stjórnarliðsins og þá sem styðja ríkisstjórnina tala hér. Hingað kom hv. þm. Magnús Orri Schram og fór með staðlausa stafi þar sem hann hélt því fram í fullri alvöru að þjóðfundurinn væri uppruninn að því frumvarpi sem greidd verða atkvæði um. Ég var á þessum þjóðfundi og ég hvet menn til að skoða niðurstöður hans. Það vita allir sem vilja vita það að stjórnlagaráð samdi þetta frumvarp.

Það hefur verið margbent á það, m.a. af fræðimönnum, síðast Gunnari Helga Kristinssyni prófessor, sem fram til þessa hefur verið aðili sem samfylkingarmenn hafa hlustað á, að aðferðafræðilega ganga þessar spurningar illa upp. Það að reyna að spinna upp núna að atkvæðagreiðslan um frumvarp stjórnlagaráðs snúist um þjóðfundinn er fullkomlega súrrealískt.

Ég fagna, virðulegi forseti, þeim breyttu vinnubrögðum að nú eftir þátt í sjónvarpinu fer allt á fleygiferð og strax er haldinn fundur hjá hv. þingnefnd til að komast til botns í málinu. Ég lagði það nefnilega til í síðustu viku í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að beiðni mín um að fá svör við spurningum sem hafa legið fyrir í marga mánuði yrði fastur liður í dagskrá nefndarinnar, annars vegar um Byr og SpKef, sem kostaði skattgreiðendur 25 milljarða, og hins vegar inngrip ríkisstjórnarinnar í Sjóvá. Núna hljóta að vera tímamót. Ég hlýt að fá upplýsingarnar á eftir. Stjórnarliðar hljóta að hlaupa til og láta okkur vita hvað er í gangi (Forseti hringir.) þegar við leggjum fram formlegar spurningar og þar af leiðandi geta þeir hjálpað okkur að sinna því hlutverki sem okkur er ætlað samkvæmt stjórnarskrá, (Forseti hringir.) að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, því að það hefur ekki verið neinn áhugi á því fram til þessa.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk, tvær mínútur í þessari umræðu.)