141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:23]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir það að þrátt fyrir hinar almennu reglur sem settar voru er varða fiskveiðar, og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir vakti athygli á, þá mun Ísland að sjálfsögðu standa föstum fótum í deilunni gegn þeim fráleitu kröfum sem uppi eru af hálfu Noregs og Evrópusambandsins, burt séð frá því er lýtur að þessum reglusetningum sem eru, eins og þingmaðurinn sagði, almennt orðaðar en túlka má með þessum hætti. Ríkisstjórn Íslands mun að sjálfsögðu standa fast á samningsmarkmiðum sínum.

Ég vildi taka sérstaklega undir þau mál sem var vakin athygli á hérna áðan er varða atkvæðagreiðsluna um stjórnarskrána. Það er innan við mánuður þangað til hún fer fram sem er auðvelt að fullyrða að marki þáttaskil í lýðveldissögunni. Þetta er meðal mikilvægustu atkvæðagreiðslna sem hafa verið haldnar hér og er ástæða til að hvetja fólk sérstaklega til málefnalegrar umræðu um tillögurnar burt séð frá skaki flokkastjórnmálanna og að taka þátt.

Þarna er verið að spyrja hvort auka eigi val persónukjörs og jafna vægi atkvæða. Þarna er verið að greiða atkvæði um þjóðareign á auðlindum landsins og síðast en ekki síst hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þetta er meiri háttar mikilvæg atkvæðagreiðsla og brýn ástæða til að halda umræðunni um inntak einstakra greina og tillögunum í heild sinni fyrir utan skotgrafir flokkastjórnmálanna sem á tíðum vilja drepa slíkri umræðu á dreif. Hér er um að ræða gífurlega mikilvægt mál og auðvitað skiptir miklu máli fyrir úrslit atkvæðagreiðslunnar að þátttaka verði góð og að umræðan á þeim fáu vikum sem eftir eru verði opin og mikil í samfélaginu um það sem þar er lagt til að verði breytt í stjórnarskrá okkar.