141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Flest fer úrskeiðis hjá hæstv. ríkisstjórn og úr böndum. Það eru glannalega mörg verkefni fram undan í fangi Alþingis til að leysa úr ósköpunum á næstu missirum.

Ég nefni stuttlega skilanefndir bankanna, spilafíknina þar. Ég lagði til í þessum sal fyrir rúmu ári að öllum skilanefndum bankanna yrði sagt upp með mánaðar fyrirvara. Það hefði betur verið gert. 500 milljónir í laun til tveggja manna á tveimur árum er ekki boðlegt.

Það er alvarlegt mál líka þegar ríkisstjórnin stendur fyrir því og samþykkir það að 5 þús. tonn af kvóta í stærstu verstöð landsins séu flutt burt. Margir kunna að hafa bilað þar á vaktinni því að þetta er flókið mál en það gengur ekki að hæstv. ríkisstjórn, sem er eigandi Landsbanka Íslands, láti skrímslið ganga laust. Skrímslið í þessu máli er Landsbanki Íslands. (Gripið fram í: Kvótakerfið.) Landsbanki Íslands ræður ferðinni og ákveður hver á að eignast hvað. Það er búið að vera að gera upp mál í langan tíma sem ekkert gekk að gera upp hjá bankanum og biðstaða og margs konar hugmyndir eru þar á bak við. Menn vomuðu þar yfir til að eignast 5 þús. tonna kvóta án þess að greiða neitt fyrir hann, hirtu það sem eftir stóð og það var ekki mikið. Þetta er málið.

Það má ekki gleyma því að það er ríkisstjórn Íslands sem ber ábyrgð á því að svo stór hluti af kvóta í stærstu verstöð Íslands er hugsanlega að fara burt úr því byggðarlagi, þeirri verstöð sem hefur gefið mest af sér af öllum byggðum Íslands í rúmlega 100 ár til íslenska þjóðfélagsins (Forseti hringir.) — af öllum byggðum Íslands.