141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ráðherra fyrir framsögu hennar hér áðan. Ég vil gera að umtalsefni þau nýju vinnubrögð sem hún fjallaði um varðandi meðferð á fjárheimildum og hallarekstri stofnana því að í frumvarpinu segir að þegar við lítum til endurskoðaðrar áætlunar um afkomu ársins 2012 sjáum við að hún er umtalsvert hærri en sú tillaga sem liggur fyrir í fjáraukalagatillögunni. Þar segir að þar sé gert ráð fyrir því að reiknað sé með umframútgjöldum hér og þar en segir jafnframt á einum stað, með leyfi forseta: „umframútgjöldum sem ekki er mætt með auknum fjárheimildum“.

Í mínum huga er þetta ávísun á það til stofnana að þær fái heimild til að fara fram úr fjárheimildum fjárlaga hverju sinni. Ég bið hæstv. ráðherra að skýra það betur en fram kom í máli hennar áðan, hvort verið sé að opna á þetta með þeim hætti sem getur í textanum.