141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort mér hafi fundist þessi aðgerð skynsamleg, að fara út á lánsfjármarkað og greiða niður neyðarlán frá nágrannaþjóðum og alþjóðastofnunum. Ég verð að svara því játandi. Það hefur verið afar skynsamlegt að gera það og þó ekki væri nema bara fyrir það að sýna fram á að Ísland hefur endurheimt lánstraust sitt á lánsfjármörkuðum sem skiptir mjög miklu máli fyrir stærri fyrirtæki og stofnanir og ég tala ekki um fyrir orkufyrirtækin okkar.

Já, vissulega leggst þannig aukinn vaxtakostnaður á A-hluta ríkissjóðs en ef við horfum á þjóðarbúið sem heild þá lækkuðu þjóðarskuldirnar með þessum aðgerðum vegna þess að við notuðum hluta af gjaldeyrisvaraforðanum sem hv. þingmaður bendir á að er stór. Það er kostnaðarsamt fyrir okkur að halda honum úti en við tókum hluta af honum í þessari aðgerð til að greiða niður lánin.

Í þeim viðræðum sem nú fara fram milli Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins erum við einmitt að ræða þessa vaxtabyrði og hvar vaxtakostnaðurinn á að liggja af gjaldeyrisvaraforðanum.