141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að sú sem hér stendur hefur ekki lofað einhverjum stofnunum, hvorki landbúnaðarháskólunum né öðrum, að klippa af þeim hala að óathuguðu máli. Eins og kom fram í ræðu minni eiga um 28 stofnanir við svipaðan vanda að stríða og landbúnaðarháskólarnir. Hallareksturinn er frá mismunandi tímum og mér finnst réttlátt og sanngjarnt að horfa á allar stofnanirnar sem eru með hallarekstur og fara yfir það skipulega hvernig hægt er að koma til móts við þær. En það er frumskilyrði að stofnanirnar séu í góðu lagi rekstrarlega séð og þær sýni fram á að þær geti haldið sig innan ramma fjárlaga og safni ekki viðbótarhalla ár frá ári.