141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá er það alveg ótvírætt tilgreint í 44. gr. fjárreiðulaganna, þar sem fjallað er um frumvarp til fjáraukalaga innan fjárhagsárs, hvert hlutverkið er. Vissulega geta áherslumálin komið í gegn í nýrri löggjöf en ef taka þarf upp sérstök mál, eins og hv. þingmaður nefnir, er rétt að það sé flokkað undir viðfangsefni sem fjallað verður um fyrir fjárlög 2013. Þar þarf auðvitað að taka á því hvernig stofnanir eiga að starfa og eiga að fá umfang til að starfa á næsta ári. Fjáraukalögin hafa sem sagt annan tilgang.

Varðandi kosningarnar var það þannig, ef ég man rétt, að stjórnarþingmennirnir vildu sameina þessar kosningar öðrum kosningum. Það var hins vegar flokkur hv. þingmanns sem vildi ekki gera það og þess vegna eru þessi fjárútlát núna.