141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:04]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við tökum hér til umfjöllunar frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012 og er svo sem margt um það að segja.

Fyrst að hinu almenna, frú forseti:

Það er sjálfsagt að beita ríkisfjármálin meiri aga en gert hefur verið á mörgum undanliðnum árum og líklega áratugum. Verða þar allir flokkar að horfa í eigin barm. Það er eðlilegt að gera þá kröfu til þeirra sem fara með fjárveitingavaldið á Alþingi og jafnframt eftirlitsvaldið að sinna störfum sínum í þaula og eyða ekki um efni fram. Meginvandi í íslenskri fjárlagagerð og eftirliti með henni hefur verið sá viðvarandi vandi að eyða um efni fram á undanliðnum árum. Þar hefur báknið, sem sumir kalla svo, orðið æ stærra og nægir að nefna í þeim efnum að opinberum starfsmönnum fjölgaði um 37% tíu ár fyrir hrun. Það var umfram efni. Við verðum að fara að með gát. Það er eðlilegt að við beitum sama aga og aðrar þjóðir gera í þessum efnum. Nægir þar að horfa til Dana sem eru með 2% aðhaldskröfu í fjárlögum hvers árs. Það er ekki sjálfgefið að hin opinbera þjónusta af hálfu ríkisvaldsins þenjist út á hverju ári, heldur má beita hagræðingarkröfunni hverju sinni með eðlilegum hætti, bæta þjónustuna en þenja hana ekki endilega út. Eins má í þessu efni velta fyrir sér hvar þessi þjónusta eigi að vera veitt, hverjir hafi aðgang að henni og hvort þeir sem borga hlutfallslega það sama til hins opinbera hafi jafngreiðan aðgang að henni og aðrir, en það er önnur saga og lýtur að byggðajöfnuði sem heyrir ef til vill undir aðra umræðu.

Sá sem hér stendur hefur verið fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd frá kosningunum 2009 og hefur oft verið hugsi yfir því hvernig farið er með opinbert fé þegar kemur að innviðum kerfisins. Við leggjum fram fjárlagafrumvarp fyrir hvert ár þar sem sumpart er erfitt að spá fyrir um tekjur og eftir atvikum gjöld. Þar af leiðandi þurfum við á fjáraukalögum að halda til að mæta öðru tveggja, ófyrirséðum útgjöldum af völdum náttúruhamfara eða ýmislegs annars og eins nýrri lagasetningu sem kallar á aukin útgjöld. Í þeim fjáraukalögum sem hér eru til umfjöllunar er verið að gera það.

Ég vil fara að með gát þegar kemur að fjáraukalögum. Mér hefur sýnst á undanliðnum árum og áratugum fjáraukalögin vera misnotuð að einhverju leyti sökum þess verklags sem hefur tíðkast og fest í sessi innan ríkisstofnana. Hver og ein þeirra vill fá meiri fjármuni til sín, það er sumpart mannlegt. Eftir að hafa lesið þetta rit um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012 tel ég að í meginatriðum sé farið að með gát. Verið var að bregðast við óvæntum aðstæðum eins og auknum snjómokstri upp á 420 milljónir, ef ég man rétt, og eins var tekið á afleiðingum náttúruhamfaranna á Suðurlandi fyrir tveimur árum og svo mætti áfram telja. Eins var náttúrlega brugðist með lagasetningu við átaki löggæslunnar er varðar stórglæpamenn og má þar líka nefna þann samning sem er yfirvofandi um Íslenska ættleiðingu. Gott og vel.

Það ánægjulega við þessi fjáraukalög er að þau sýna að skatttekjur eru að aukast, en að sama skapi er verið að bæta í útgjöld á rekstrargrunni upp á 12,5 milljarða, ef ég man rétt, á móti 10 milljarða kr. auknum skatttekjum. Ef farið er yfir þessa þætti er hægt að staldra víða við. Auðvitað er freistandi að líta svo á fjáraukalögin að þau geti komið til móts við mjög sterkar óskir, t.d. frá löggæslunni sem hefur verið hart leikin og er að mínu viti ein af meginstoðum íslensks velferðarkerfis og þarf að vera mjög vakandi í samfélaginu yfir aðstæðum sem koma skyndilega upp og eru af margvíslegu tagi og í flestum tilvikum ófyrirséðar. Það er mjög freistandi að leggja til meiri fjármuni í þau málefni. Hér er verið að gera það í einhverjum mæli en klárlega er ekki komið til móts við allar þarfir eins og verða vill þegar illa árar í ríkisfjárbúskapnum. En ég gleðst sérstaklega yfir því að í fjáraukalögum sé að sumu leyti mætt þeim ófyrirséðu aðstæðum sem hafa komið upp í viðureign lögreglunnar, þar með talið ríkislögreglustjóra, við skipulögð glæpagengi sem hafa verið að ryðja sér hér til rúms á undanliðnum missirum. Það er auðvitað krafa almennings að ríkisvaldið, framkvæmdarvaldið, bregðist fljótt við slíkum aðstæðum. Að því leyti er eðlilegt að nota fjáraukalögin til að mæta aðstæðum sem upp koma ef þörfin er vel rökstudd af hálfu löggæslunnar.

Ég fagna líka þeim fáu milljónum en mikilvægu sem borist hafa Íslenskri ættleiðingu og get auðveldlega samsamað mig þeim hjónum og öðru fólki sem á erfitt með að eignast börn og berst fyrir þeim sumpart sjálfsögðu mannréttindum að geta alið upp barn eða börn. Það er gott að ríkisvaldið liðsinni fólki í þeim efnum. Eins og fram kemur í frumvarpinu er innanríkisráðuneytið að vinna að samningi við Íslenska ættleiðingu og kemur þeim félagsskap nú til hjálpar svo að hann geti rækt sínar skyldur og er það vel.

Frú forseti. Almennt vil ég segja að við eigum að fara að með gát þegar kemur að óskum um auknar fjárheimildir í fjárlagagerðinni. Það er hætt við því að á milli umræðna í fjárlagagerð næsta árs komi háværar óskir frá mörgum stofnunum undir ráðuneytunum um frekari útgjöld. Við þurfum að vanda þar til verka og meta hverja ósk fyrir sig. Það er í sjálfu sér pólitík og snýr að þeim forgangsverkefnum sem við viljum standa fyrir í litrófi stjórnmálanna. Það er hætt við því að slíkar óskir séu langt fram úr getu ríkissjóðs. Það er að því leyti eðlilegt að við skoðum hvert og eitt mál fyrir sig með það fyrir augum að eyða ekki um efni fram.

Annar stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs er vaxtakostnaður. Við þurfum að vinda ofan af þeim vanda og breyta vöxtum í velferð. Það er meginverkefni í ríkisfjármálum nú um stundir.

Eins vil ég gjalda varhuga við því að fjáraukalögin séu notuð eins og stundum í fyrri tíð til að fela áætluð útgjöld og menn hafi svo að segja áskrift að þessum lið í rekstri ríkisstofnana sinna. Jafnframt tek ég undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að ríkisreikningurinn sjálfur þarf að vera með þeim hætti að hann sé í anda fjárlaganna og fjáraukalaganna en ekki sjálfstæð heimild til að fela einhver útgjöld sem kunna að vera í reikningum ríkisins. Ríkisreikningur hlýtur að vera andlag þessara tveggja þátta fjárlaga og fjáraukalaga og má ekki lifa sjálfstæðu lífi ef svo má segja óháð eftirliti Alþingis og undirstofnana þess.

Eftir að hafa lesið fjáraukalögin vil ég segja að í þeim er farið að með gát. Hér er ekki endilega verið að fara fram úr efnum sem við ráðum við. Auknar skatttekjur eru upp á 10 milljarða, en útgjöldin um 12,5 milljarðar á rekstrargrunni. Í þeim er verið að bregðast við aðstæðum, bæði er varðar nýja lagasetningu og ófyrirséðar aðstæður. Það ánægjulega er að fjáraukalögin eru að lækka að upphæð frá síðustu árum og hafa í fyrri tíð verið allt of há. Ef ég man rétt námu þau um 17 milljörðum á árinu á undan, en eru nú komin niður í 12 milljarða þannig að við erum á réttri leið. Eins og ég segi almennt séð erum við að fara að með gát þegar kemur að ríkisfjármálunum. Það er vel. Auðvitað eru uppi óskir um að eyða meiru fé, en það er ekki til. Við þurfum að forgangsraða í komandi fjárlagagerð og deila þeim litlu fjárhæðum sem til eru í brýnustu verkefni. Þar hef ég nefnt löggæsluna sem er partur af velferðarþjónustunni. Eins vil ég nefna sérstaklega framhaldsskólana sem ég tel vera komna að mörkum hins þolanlega í rekstri og annað mætti telja.

Almennt vil ég segja að ég hlakka til umræðunnar um fjáraukalögin í hv. fjárlaganefnd á komandi dögum. Við eigum að horfa á þetta plagg gagnrýnum augum. Við eigum að fylgjast vel með því hvernig ríkisvaldið ver fjármunum sínum. Þar eiga allir flokkar að sameinast um að fara eins vel með fjármuni ríkisins, skattborgaranna, og hugsast getur hverju sinni.