141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég vil þó spyrja hann nokkurra spurninga um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Hv. þingmanni verður tíðrætt um að fjáraukalögin eigi eingöngu að mæta ófyrirséðum útgjöldum að meginstofni til, en þegar maður lítur yfir þær tillögur eða óskir frá ríkisstjórninni til þingsins um aukafjárveitingar þarf ekki að leita lengi til að sjá fjölda þátta sem í raun eru ekkert ófyrirsjáanlegir en kalla engu að síður á útgjöld. Nægir í því sambandi að nefna framlög til heilbrigðisstofnana, 50,3 millj. kr., sem eru húsaleiga til fjögurra heilbrigðisstofnana. Þetta er mál sem við ræddum í fyrrahaust í tengslum við fjárlagagerðina. Menn treystu sér ekki þá til þess að koma því inn í fjárlög en koma núna þessa leiðina með beiðnina, sem mismunar í raun heilbrigðisstofnunum um allt land. Við hljótum að kalla eftir frekari upplýsingum um á hvaða grunni þetta er gert.

Ég rek líka augun í útgjöld til Hagstofunnar og er tiltekin á bls. 90 30,6 millj. kr. hækkun. Hún stafar af IPA-styrkjum sem sú stofnun hefur fengið. Ég hélt raunar að það væri ekki búið að úthluta þeim en engu að síður er ætlunin að koma á fót 25 starfsstöðvum. Hefur hv. þingmaður hugmyndir um það hvar þessi 25 störf verða? Hv. þingmaður hefur talað mjög fyrir því að störf á vegum hins opinbera verði sett niður einhvers staðar annars staðar en akkúrat í miðju Stjórnarráðsins sjálfs í Reykjavík. Það væri fróðlegt að heyra afstöðu hv. varaformanns fjárlaganefndar til þessara þátta.