141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:20]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svör hv. þingmanns svo langt sem þau ná. Ég vil fylgja þessu aðeins betur eftir. Ég held að við dettum oft niður í baunatalningu í þessum málum. Öll þessi mál sem maður hefur verið að nefna eru ekki stóru dæmin. Þetta eru tiltölulega lágar fjárhæðir sem koma sér mjög vel víða og eru bráðnauðsynlegar sums staðar. Stóru dæmin eru allt annars staðar. Ég nefni dæmi af hækkun á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins um rúm 5% á milli ára. Ég nefni vaxtakostnaðinn sem er tekinn á grunni ákvörðunar um að endurfjármagna tiltekin lán og hefði að mínu mati mátt bíða, en látum það liggja milli hluta. Það eru ýmsir svona þættir sem lúta meðal annars að ákveðnum gildum í grunnþjónustu landsins sem við eigum að sjálfsögðu að reyna að greiða fyrir. Það skilur ekki á milli feigs og ófeigs þótt orðið sé við þeim beiðnum. Ég nefni bara dæmi sem ég veit að hv. þingmanni er mjög hugleikið sem er rekstur öldrunarþjónustu á Vopnafirði. Hvernig ætla menn að fara í það? Sú stofnun sem heldur utan um þann rekstur er sett í þá stöðu, á grundvelli vilyrða sem gefin voru af ráðuneytinu um svokallaðan frystan halla, að fjármagna rekstur sinn með yfirdrætti. Þetta er glórulaust. Það hlýtur að vera til hagsbóta fyrir alla að taka á þáttum eins og þessum og henda þeim ekki eilíflega á undan sér. Menn verða þá að taka ákvörðun um að leggja bara niður stofnunina ef vilji stendur til þess.

Mér finnst oft og tíðum vanta fyrirmæli frá stjórnvaldinu sem hefur yfirumsjón og yfirábyrgðina á tiltekinni þjónustu, til þeirra stjórnenda sem engjast um vegna skertra fjárveitinga, eðlilega. Það verða að koma fyrirmæli vegna þess að þeir eru bundnir af lögum um að framfylgja tilteknum þjónustuþáttum. Þannig að ég inni hv. þingmann eftir því hvernig menn ætla að taka þótt ekki væri nema á þeim vilyrðum sem gefin voru um að frysta hallann.