141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[16:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Við erum komin kannski út í aðra umræðu en beinlínis um það frumvarp sem liggur hér fyrir, þó má alveg undir ákveðnu sjónarhorni nálgast málið með þessum hætti. Ég ætla samt að færa svar mitt aðeins inn í umræðuna að því leytinu til að það er rétt að völdum hættir til að þjappast saman. Það er í rauninni eitt sem ræður því öðru fremur — við þekkjum það ágætlega úr íslensku stjórnkerfi og þetta þekkist alls staðar annars staðar — og það er aðgengi og yfirráð yfir upplýsingum. Þeir sem hafa mestu færin til að höndla upplýsingar hafa bestu færin til að ráðstafa og grípa til ráðstafana.

Í þessum efnum varðandi fjáraukalagafrumvarpið gildir alveg nákvæmlega það sama. Meiri hluti fjárlaganefndar hverju sinni hefur betra aðgengi að upplýsingum en stjórnarandstaðan. Þetta er hlutur sem ég vil gjarnan breyta þannig að við stöndum jafnfætis í því hvernig við fjöllum um þessa þætti. Ég heiti á hv. þingmann að leggja sig fram um það að gera breytingar á þessu vegna þess að ég held að það verði öllum til bóta, öllum, ekki bara stjórnarandstöðu eða stjórnarliðum heldur þeim sem þjónustunnar eiga að njóta og ekki síður þeim sem eiga að standa undir þessu með skattgreiðslum sínum í ríkissjóð, að við verðum betur í færum til að greina það hvernig þeim skattpeningum er ráðstafað.

Þetta er hið almenna svar mitt við þeim vangaveltum í andsvari hv. þingmanns sem hann beindi til mín. Ég held að við gætum alveg lagt saman í þetta en það verður samt að verða ákveðin breyting á. Meðan við erum að höndla þessa þætti í svona almennri umræðu ættum við að einbeita okkur að því að byrja fremur smátt og taka til verka varðandi fjáraukalagafrumvarpið og þar sem við vitum að eru brotalamir í þeim tillögum sem þar liggja fyrir frá ríkisstjórn og beita þá afli Alþingis í ljósi þeirra upplýsinga sem það getur sótt sér til að breyta (Forseti hringir.) þeim áherslum sem þar koma fram.