141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

skattar og gjöld.

101. mál
[17:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð yfir frumvarpið. Ég er með tvær spurningar:

Segjum að hjón séu skattskyld í tveimur löndum og þau lönd séu með sambærilegar reglur og við um vaxtabætur og barnabætur. Mundu hjónin fá barnabætur í báðum löndunum? Mundu þau fá vaxtabætur í báðum löndunum? Ef hjónin hafa til dæmis vaxtagjöld í Þýskalandi, telja þeir vextir til vaxtabóta hér á Íslandi?

Í 3. gr. er athyglisvert atriði. Hæstiréttur felldi þann dóm að gengistryggð lán væru ólögmæt og að miða ætti við krónur. Síðan felldi Hæstiréttur þann dóm að ekki skyldi bara miða við krónur heldur skyldi miða vextina við upprunalegu vexti sem miðuðust við allt aðra mynt. Maður sem tók lán í svissneskum frönkum, með 1 eða 2% vöxtum, á að borga 1 eða 2% vexti ofan á krónur. Mjög athyglisvert. Þetta þýðir að þessi lán eru að meginhluta til gefin miðað við sambærileg lán sem fólk er með á íbúðunum sínum.

Til viðbótar við þessa gjöf eiga menn nú að geta haldið vaxtabótunum sem þeir fengu þegar þeir greiddu verðbætur eða gengismun á þessi lán sem var umtalsverður. Það á sem sagt að bæta um betur og ekki bara gefa þeim lánið sjálft, heldur fá þeir líka vaxtafrádráttinn sem þeir fengu út af óheyrilega háu gengisálagi á lánin sem þeir fá endurgreitt.