141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[18:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp í andsvar við hv. þingmann þar sem hann beindi mörgum spurningum til mín í ræðu sinni. Þegar sparisjóðirnir verða seldir verður auðvitað farið yfir samkeppnisstöðu fjármálafyrirtækja á svæðinu. Samkeppniseftirlitið hefur beitt sér þegar út í það er farið. Farið verður yfir öll þau atriði sem hv. þingmaður nefndi, einnig til að tryggja og undirbyggja sparisjóðakerfið sem kerfi sem starfar þá við hlið stóru bankanna með annað hlutverk.

Hverjir eiga bankana? Nú er í gangi ferli sem mun leiða til nauðungarsamninga og því fyrr sem það mun ganga, því fyrr vitum við hverjir eiga bankana og við hverja er þá að semja, en það er rétt sem hv. þingmaður fór yfir, það verður ekki fyrr en nauðasamningum er lokið að okkur verður ljóst hverjir eiga bankana.

Hv. þingmaður spurði einnig hvort rætt hefði verið um dreifða eignaraðild við samningu frumvarpsins. Auðvitað var margt rætt fram og til baka og öllum hliðum velt upp. Það er allt annað ferli sem fer í gang ef þetta frumvarp verður samþykkt því að þá verður umræða í þingnefndum og eins í þingsal um söluna. Dreifð eignaraðild er æskileg en í undantekningartilfellum gæti verið að hún væri ekki æskileg.