141. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[18:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að svara þeim spurningum sem ég lagði fram. Það dugir að mínu mati ekki þegar verið er að ræða um söluna á sparisjóðunum að bara sé farið yfir samkeppnisstöðuna á þeim markaðssvæðum sem sparisjóðirnir eru starfandi í einstökum tilvikum. Stefna ríkisstjórnarinnar verður einfaldlega að liggja klár fyrir um það hvort fylgja eigi þeim fyrirheitum sem hæstv. þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, gaf úr ræðustól Alþingis í umræðu um samþjöppun í bankakerfinu, fjármálakerfinu. Það verður að liggja fyrir hvort ætlunin sé að fylgja eftir þeirri stefnumörkun sem hæstv. ráðherra setti fram.

Ég ítreka þá spurningu mína til hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki sömu skoðun á þessu máli og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, sem ég gerði áðan grein fyrir.

Nú segir hæstv. ráðherra að það þurfi að bíða nauðasamninganna til að komast að því hverjir eigi bankana í landinu. Með öðrum orðum, svar hæstv. ráðherra er þetta: Í dag veit enginn hver á Arion banka. Í dag veit enginn hver á Íslandsbanka. Þannig er staðan.

Ég rakti það áðan að á árinu 2009, ég hygg að það hafi örugglega verið í tíð hæstv. ráðherra Gylfa Magnússonar, fékk ég svar með eftirgangsmunum um stærstu kröfuhafana sem þar með verða stærstu eigendurnir. Nú veit ég að þetta er kvikt og breytist en ég trúi ekki öðru en að í undirbúningi þessa máls hafi það verið skoðað gróflega hverjir væru stærstu aðilarnir, hvers við mættum vænta, hverjir væru eigendurnir og að ástæða hefði verið til að ræða þessi mál til að komast að því hvaða áform væru uppi um rekstur þessara banka í framtíðinni.