141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og aðrir þingmenn er ég sleginn af þeim fréttum sem við höfum fengið af endurskoðun ríkisendurskoðanda á þeim tölvukerfum sem um er að ræða og menn þekkja. Þetta er tvennt, annars vegar er það endurskoðunin sjálf sem hefur brugðist og það þarf að taka á henni og hins vegar eru það tölvukerfin sem landsmenn treysta. Mjög margir fá greidd launin sín, bætur og annað með þessum tölvukerfum, tollar og skattar eru innheimtir með þessum kerfum og það er mjög slæmt ef menn bera ekki fyllsta traust til þeirra.

Þess vegna skora ég á alla hv. þingmenn að líta til framtíðar, vinna saman að átaki í því að koma þessum kerfum í það horf að ekki séu á þeim neinir annmarkar. Auðvitað eru alltaf gallar í tölvukerfum, annað er útilokað, en við þurfum að fækka þeim eins og hægt er og koma á þannig kerfum að landsmenn geti treyst þeim. Ég skora á alla þingmenn að vinna saman að því að þessi kerfi verði löguð.

Svo er það með traust okkar á ríkisendurskoðanda. Fyrri ræðumaður spurði: Hver gætir hliðanna ef menn geta ekki treyst vörðunum? Við þurfum að vinna vel og vandlega að því að byggja aftur upp traust milli okkar og varðanna og svo milli okkar og þjóðarinnar þannig að ég skora á alla hv. þingmenn að taka höndum saman um að vinna að þessum tveim verkefnum, koma með almennilegt tölvukerfi sem allir geta treyst, jafnt þeir sem borga skatta og tolla og fá laun greidd og annað slíkt, og síðan að bæta eftirlitið. Þar treysti ég á frú forseta Alþingis.