141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Auðvitað vildum við gjarnan geta uppfyllt þarfir Landspítala – Háskólasjúkrahúss fyrir nýjungar og tæki en við vitum að það er ekki til fjármagn til þess. Við erum nefnilega að glíma við gamlan vanda og nýjan, þannig er staðan.

Að frumkvæði velferðarráðherra hefur nú verið kallað eftir áætlun um endurnýjun tækjabúnaðar til margra ára og hún sett inn í heilbrigðisáætlun sem á að endurskoða á tveggja ára fresti þannig að búið er að setja málið í markvisst og faglegt ferli sem ég held að sé mjög til hins góða. Að sjálfsögðu vantar fjármagn og þingmaðurinn hefur greinilega lagt sig fram um að leita að öllu sem hefur lýsingarorðið „grænt“ í fjárfestingaráætluninni og vill gjarnan fella það út — (Gripið fram í.) og eitt og eitt verkefni þar fyrir utan. Við verðum þó að gera okkur grein fyrir því að mörg þau verkefni sem hv. þingmaður nefndi eru atvinnuskapandi og ég veit að þingmanninum eru þau mál mjög hugstæð. Því megum við ekki gleyma.

Ég held að það sem skipti nú máli sé að við tökum öll höndum saman um að afla fjármagns og finna fjármagn til að við getum endurnýjað tækjabúnað, ekki bara á Landspítalanum heldur einnig á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og öðrum heilbrigðisstofnunum. Það er víðar en á Landspítalanum sem þarf að fara að endurnýja búnað.

Það er dýrt að vera fátækur, við vitum það alveg, en mér finnst að við megum ekki gleyma því að það er enn dýrara að vera ríkur og nískur á velferðarmál í mörg ár. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)