141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:58]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og veit af áhuga hans í þessum efnum. Þess vegna finnst mér enn dapurlegra að þegar þessi mál komast á forræði flokka sem eru búnir að berjast fyrir þessu á undanförnum árum skuli ekki einu sinni tillagan sem lögð er fram hljóða upp á að fylgja eftir stefnuskrá flokkanna. Ég geri mér grein fyrir því að það eru skiptar skoðanir um þetta á þingi eins og hefur verið, og við höfum tekist á um þetta áður, en þarna var tækifæri og ég tel að þessi svæði eigi að vera í verndarflokki.

Það er líka með vinnuna í þessum efnum, ég kom sjálfur að því í ferlinu að hafa afskipti af henni og það urðu mér mikil vonbrigði þegar málið var tekið úr höndum verkefnisstjórnarinnar. Við gátum deilt um hvernig hún var skipuð, ég hafði þá skipað fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í málið, en það eru mér vonbrigði að málið skuli hafa verið tekið úr höndum hennar áður en þessi flokkun átti sér stað.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna var það gert? Ég er mjög einlægur hvatamaður (Forseti hringir.) að því að við verndum meira en við virkjum og þetta átti að hljóða upp á verndaráætlun en (Forseti hringir.) er allt of mikið virkjunaráætlun.