141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er mælt fyrir byggir ekki á skiptum skoðunum á Alþingi heldur því ferli sem er skilgreint samkvæmt lögum. Það er það verkefni sem blasir við.

Varðandi þá spurningu sem kom fram í andsvari hv. þingmanns um skil verkefnisstjórnarinnar annars vegar og hins vegar vinnu formanna faghópanna er því til að svara að verkefnisstjórninni var ekki falið að flokka kostina í biðflokk, verndarflokk og nýtingarflokk, heldur að skila röðun. Sú skýrsla var ekki fullnægjandi, eins og ég kom að í framsögu minni, sem þingsályktunartillaga og þurfti þá að koma henni í slíkan búning. Við töldum faglegt og málefnalegt að gera það þannig að formenn faghópanna önnuðust þá vinnu.