141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í fyrsta lagi varðandi teravattstundirnar innan friðlýstra svæða er í sjálfu sér ágætt að halda þeim til haga en samkvæmt lögunum falla þessi friðlýstu svæði utan flokkunarinnar vegna þess að Alþingi taldi við lagasetninguna að þegar væri búið að taka afstöðu til verndargildis þessara svæða og það þyrfti ekki að fletta neinum blöðum um að þessi svæði væru þess virði að vernda þau. Ég þarf raunar að geta þess í þessu andsvari að ég sakna þess að heyra tóna hjá kjörnum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem lúta að einhverjum áhuga á náttúruvernd. Miðað við það sem maður heyrir meðal kjósenda þess sama flokks hef ég á tilfinningunni (Gripið fram í.) að það endurspeglist ekki meðal þingmannanna sem iðulega halla sér á sveif með (Gripið fram í.) nýtingu.

Varðandi þjóðgarðana og vangaveltur hv. þingmanns um flutninga á þeim svæðum erum við þarna dálítið að feta okkur áfram í umræðu og að hluta til vísum við líka til umræðu sem lýtur að landsskipulagsstefnu og þeim mikla þunga sem þar er lagður á víðerni og víðernaupplifun. Sú umræða er sem betur fer að festast í sessi, og henni að aukast fylgi, að víðernin sem slík séu auðlind vegna þess að þau er ekki að finna mjög víða á byggðu bóli, síst á Vesturlöndum.

Þær röksemdir sem komu fram þóttu þess virði að skoða þær betur vegna þess að með bakið í virkjun og víðerni fyrir framan sig er ekkert endilega víst að víðernaupplifunin sé óskert. Þetta töldum við að (Forseti hringir.) þyrfti að skoða með hliðsjón af alþjóðlegum stöðlum.